Þýskaland - Currywurst


Vegna þess að það er sumar (og vonandi bráðum sól) þá ákvað ég að elda currywurst frá Þýskalandi. Mér fannst það eitthvað svo við hæfi. Þýskaland þekkja flestir sennilega eitthvað til. Það er land í Evrópu og er það næstfjölmennasta í álfunni með um 81 milljón íbúa sem búa á svæði sem er um 3,5 sinnum stærra en Ísland. Höfuðborg landsins heitir Berlín og opinbert tungumál landsins er þýska. Lífsgæði í Þýskalandi eru eins og best verður á kosið og hagkerfi landsins er það fjórða stærsta í heiminum. Þýsk menning er vel þekkt og Þýskaland hefur gefið heiminum fólk allt frá Beethovens til Einsteins og líka Rammstein. 

Þýsk matarmenning er kannski alveg jafn vel þekkt og öll klassísku tónskáldin, heimspekingarnir, íþróttamennirnir og rithöfundarnir… ja, fyrir utan kannski pylsurnar og bjórinn. Þýskur matur er hins vegar mjög fjölbreyttur og mismunandi á milli svæða í þessu stóra landi. Þekktir þýskir réttir eru t.d. sauerkraut, stollen (jólabrauðið), currywurst, pfannkuchen (berlínarbollur) og svartaskógarkaka. Þýskur matur er mjög evrópskur. Mikið er notað af mjólkurvörum, kornvörum, kartöflum og kjöti en lítið af kryddum. Helst voru þá steinselja, timjan, lárviðarlauf, graslaukur, svartur pipar, einiber, múskat og kúmen notað ásamt kardimommum, anís og kanil í sæta rétti. 
Currywurst er ekki mjög gamall réttur. Hann var fundinn upp árið 1949 í Berlín af Hertu Heuwer. Hún hafði komist yfir tómatsósu og karrýduft og fór að prófa sig áfram. Hún hóf svo að selja currywurst á götum Berlínar og pylsurnar urðu gríðarlega vinsælar meðal verkamanna. Í dag er þetta sennilega vinsælasti götumaturinn í Þýskalandi. Talið er að seldar séu um 800 milljónir af currywurst ár hvert í Þýskalandi. 

Currywurst

6 bratwurst-pylsur
1 dós tómatar í bitum
chilisósa (“hotsauce”) eftir smekk
1/2 tsk laukduft
1 msk sukrin/sæta
1 tsk svartur pipar
smá paprikuduft
1-2 tsk karrýduft
salt

1. Byrjið á að hita ofninn eða grillið. Setjið pylsurnar í ofninn þegar hann er orðinn heitur, ef ofn er notaður.
2. Setjið tómatana í pott og leyfið þeim að malla í 5 mínútur.
3. Setjið allt kryddið út í og leyfið sósunni að eldast á meðalháum hita í nokkrar mínútur. 
4. Smakkið sósuna til með salti og mögulega meira karrýi. 
5. Þegar sósan er búin að þykkjast aðeins skulið þið setja hana í sigti og sigta alla tómatbita frá. 
6. Berist fram með pylsunum og sauerkrauti. 

Þetta var auðvitað afskaplega auðveld uppskrift og mjög sniðugt fyrir sumarið ef maður vill prófa eitthvað nýtt á grillið. Það kom mér á óvart hvað það var auðvelt að búa til alvöru tómatsósu með tómötum úr dós. Ég á sennilega eitthvað eftir að prófa mig áfram í því svo ég geti sleppt því að kaupa sykraða tómatsósu út í búð. 

Þá eru 41 af 197 löndum búin. Næsta stopp er Eistland!
Afríka: 11 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 9 af 46
Eyjaálfa: 6 af 14
Norður Ameríka: 6 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12

Samtals: 41 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur