Marokkó - Kjúklingatagine með niðursoðnum sítrónum og ólífum


Ég held bara að öll auðveldu löndin komi bara strax. Marokkó er eitt af þessum löndum þar sem er til endalaust af ótrúlega góðum réttum. Ég var löngu búin að ákveða réttinn fyrir Marokkó, enda einn af uppáhalds réttunum mínum. 
Marokkó er annars konungsríki í norðvestur Afríku og á landamæri að Alsír og Vestur-Sahara. Það er ekki hægt að fara yfir landamærin til Alsír vegna deilna landanna um Vestur-Sahara. Höfuðborg landsins heitir Rabat og landið fékk sjálfstæði frá Frakklandi árið 1956. Í landinu búa um 33 milljónir manna á svæði sem er um sjö sinnum stærra en Ísland. Íbúar landsins eru flestir af arabískum og berbískum ættum. Opinber tungumál landsins eru arabíska og berbísk tungumál. Langflestir Marokkóbúar eru sunní múslimar. 
Marokkósk matargerð er ein af þessum stóru einstöku matargerðum í heiminum. Hún er einhvers konar blanda af matargerð miðjarðarhafsins, arabískri, andalúsískri og berbískri matargerð. Algengt prótein í matargerðinni er geita-, nauta-, kinda- og lambakjöt, kjúklingur og sjávarfang. Annað sem einkennir marokkóska matargerð eru niðursoðnar sítrónur, arganolía, ólífuolía og þurrkaðir ávextir. Mikið er einnig notað af brauði og kúskús. Marokkóbúar nota mikið af kryddum í réttina sína. Vinsæl krydd eru t.d. kanill, cumin, túrmerik, engifer, pipar, paprika, kóríander, saffron, fennel, negull, anís, múskat, óreganó og mynta. Ras el hanout er fræg kryddblanda frá landinu. Tagine er nokkurs konar pottréttur sem er eldaður í sérstökum tagine-potti. Ég valdi einmitt að gera tagine-rétt, í alvöru potti og allt. Pottarnir sjást í neðra hægra horninu hér á myndinni til hægri. 

Kjúklingatagine með niðursoðnum sítrónum og ólífum

ólífuolía
2 laukar, saxaðir
2-3 hvítlauksrif, smátt söxuð
1/2 tsk saffron (túrmerik ef saffron fæst ekki)
1/2 tsk engiferduft
kjúklingabitar
salt og pipar
300 ml vatn
safi úr 1/2 sítrónu
3 msk ferskur kóríander, saxaður
börkur af 2 litlum niðursoðnum sítrónum, í ræmum (til í Istanbul Market)
12-16 svartar ólífur (góðar)

1. Byrjið á því að steikja laukinn á tagine-potti í nokkrar mínútur. 
2. Bætið hvítlauknum, saffroninu og engiferduftinu og eldið í örfáar mínútur.
3. Setjið kjúklingabitana út í pottinn og saltið og piprið. 
4. Bætið vatni út í pottinn, setjið lokið á og eldið kjúklinginn í um 30-40 mínútur. 
5. Bætið við sítrónusafanum, kóríandernum og niðursoðna sítrónuberkinum og eldið áfram í 10 mínútur. 
6. Ef sósan er of þunn á þessum tímapunkti skal taka lokið af og leyfa sósunna að þykkna aðeins. 
7. Bætið loks ólífunum út í áður en rétturinn er borinn fram.

Venjulega væri eðlilegt að borða réttinn með kúskúsi og brauði en þar sem ég borða ekki slíkt ofnbakaði ég eggaldinbita og hafði það með. 

Ég get eiginlega ekki mælt meira með þessum rétti. Hann fær hiklaust ✩✩✩✩✩ stjörnur af fimm mögulegum. Þetta er sennilega bara uppáhalds rétturinn minn.

بالصحة!

Nú eru 12 af 198 löndum búin! Næsta stopp er í einu heimsálfunni sem ég hef ekki eldað rétt frá í þessari áskorun, Eyjaálfu. 


Afríka: 2 af 54
Asía: 3 af 49
Evrópa: 3 af 46
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 1 af 12

Samtals: 12 af 198

Ummæli

  1. Þessi réttur er bara dásamlegur. Sítrónurnar gefa alveg einstakt bragð og það er alls ekki hægt að skipta þeim út fyrir ferskar. Það yrði allt annar réttur.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur