Kína - Kínverskt nýár
Gleðilegt ár hundsins! 新年好
Þann 16. febrúar héldu Kínverjar (og nokkrar aðrar þjóðir í Austur-Asíu) upp á nýtt ár. Í Kína er notað annað tímatal en hér á Vesturlöndum og miðast það við gang tunglsins. Hátíðin er aðalhátíðin í Kína og stendur yfir í tvær vikur og endar með ljóskerjahátíðinni. Hvert ár í kínverska tímatalinu er tengt ákveðnu dýri. Dýrin eru tólf talsins og því var síðast ár hundsins fyrir tólf árum. Kínverjar trúa því að fólk sem fæðist t.d. á þessu ári tileinki sér eiginleika hundsins. Hin dýrin eru svín, rotta, naut, tígrisdýr, kanína, dreki, snákur, hestur, geit, api og hani. Hér er fyrir neðan getur þú komist að því hvaða dýri þú tilheyrir:
- Hundur: 2018, 2006, 1994, 1982, 1970, 1958, 1946, 1934
- Svín: 2019, 2007, 1995, 1983, 1971, 1959, 1947, 1935
- Rotta: 2008, 1996, 1984, 1972, 1960, 1948, 1936
- Naut: 2009, 1997, 1985, 1973, 1961, 1949, 1937
- Tígrisdýr: 2010, 1998, 1986, 1974, 1962, 1950, 1938
- Kanína: 2011, 1999, 1987, 1975, 1963, 1951, 1939
- Dreki: 2012, 2000, 1988, 1976, 1964, 1952, 1940, 1928
- Snákur: 2013, 2001, 1989, 1977, 1965, 1953, 1941, 1929
- Hestur: 2014, 2002, 1990, 1978, 1966, 1954, 1942, 1930
- Geit: 2015, 2003, 1991, 1979, 1967, 1955, 1943, 1931
- Api: 2016, 2004, 1992, 1980, 1968, 1956, 1944, 1932
- Hani: 2017, 2005, 1993, 1981, 1969, 1957, 1945, 1933
Rauður er litur þessa dags. Börnum eru gefin rauð umslög með peningum í að gjöf frá ættingjum og flugeldar sprengdir. Að sjálfsögðu vantar ekki matinn.
Í tilefni kínverska nýársins eldaði ég kjúkling frá Shandong-héraði í austur Kína.
Kjúklingur frá Shandong
1 heill kjúklingur
3 msk ljós sojasósa
500 ml olía til steikingar
1 msk sichuanpiparkorn
2 tsk engifer, saxaður
2 vorlaukar, saxaðir
1 gúrka
brokkolí
Sósa:
2 msk hvítlaukur, smátt saxaður
2 msk kóríander, saxaður
2 msk sojasósa
2 msk svart- eða balsamedik
1 msk sesamolía
1 tsk sæta
1. Byrjið á að setja kjúklinginn í stóra skál og hella sojasósunni út á og marínerið í 15 mínútur áður en honum er snúið við. Setjið síðan kjúklinginn í ísskáp og þurrkið hann þar í klukkustund.
2. Hitið olíu á pönnu í u.m.þ. 150°C. Steikið kjúklinginn í olíunni í um 3-4 mínútur á hvorri hlið. Takið hann svo af pönnunni.
3. Ristið sichuanpiparkornin á pönnu á miðlungslágum hita í 2-3 mínútur. Malið svo létt í morteli.
4. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið engiferinn og vorlaukinn út á.
5. Bætið smá vatni út í eldfasta mótið og stingið því inn í ofn á miðlungshita. Eldið kjúklinginn í um eina klukkustund.
6. Skerið gúrkuna niður og setjið í skál og útbúið brokkolígrjón úr brokkolíinu.
7. Til að búa til sósuna er öllu blandað saman í skál og 60 ml af kjúklingasoðinu bætt út í.
Gjörið svo vel!
Mér fannst þessi réttur mjög góður. Þetta er allt öðruvísi kjúklingur en maður fær venjulega. Sósan sem var með kjúklingnum var ótrúlega góð og ég mæli með að búa til meira af henni en er hér í uppskriftinni. Þetta var svo sannarlega góð máltíð til að hefja nýja árið með.
Þar sem eftirréttir eru ekki algengir í Kína og þeir fáu sem til eru ekki lkl-vænir hafði ég einfaldlega jarðarber og rautt epli með súkkulaði í eftirrétt. Ég bjó svo einnig til pappírs „fortune-cookies“ með íslenskum málháttum inn í. Þessar kökur eru reyndar alls ekki kínverskar heldur bandarískar, en þær eru bara svo skemmtilegar.
Þá eru 82 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Kúba!
Afríka: 24 af 54 (44%)
Asía: 15 af 49 (30%)
Evrópa: 21 af 46 (45%)
Eyjaálfa: 8 af 14 (57%)
Norður Ameríka: 8 af 23 (34%)
Suður Ameríka: 6 af 12 (50%)
Samtals: 82 af 198 (41,4%)
Ummæli
Skrifa ummæli