Búlgaría - Kavarma
Næsta stopp var Búlgaría! En Búlgaría (България) er land í Suðaustur-Evrópu. Landið á landamæri að Rúmeníu, Tyrklandi, Grikklandi, Serbíu og Makedóníu. Höfuðborg landsins heitir Sófía og í landinu búa rúmar 7 milljónir á svæði sem er örlítið stærra en Ísland. Búlgarar hafa verið kristnir frá því á 9. öld og nokkur önnur ríki hafa ríkt yfir svæðinu í gegnum aldirnar, t.d. Tyrkir og Rómverjar. Í Búlgaríu ríkti leppstjórn kommúnista frá árinu 1944 til ársins 1991. Flestir íbúar landsins eru Búlgarar, tæp 85% en stærstu minnihlutahópar landsins eru Tyrkir og Rómafólk. Búlgaría er tiltölulega heitt land og þar vaxa því auðveldlega fjöldamargar kryddjurtir, grænmetistegundir og ávextir. Þetta einkennir mjög búlgarska matreiðslu en kjöt, fiskur og mjólkurvörur eru einnig vinsælar. Búlgarar hafa framleitt vín í um þúsund ár og það má einmitt sjá í réttinum sem ég eldaði frá landinu.
700 g svínagúllas (eða annað kjöt)
1 tsk cumin
1 tsk oregano
2 lárviðarlauf
salt og pipar
smjör
1 laukur, saxaður
250 g sveppir, í sneiðum
1 stór gulrót, í sneiðum
1 rauð paprika, í bitum
2 tómatar, afhýddir og saxaðir
1 1/2 dl hvítvín
4 blaðlaukar, í sneiðum
1. Byrjið á að blanda saman kryddunum og nuddið á kjötið.
2. Undiðbúið allt grænmetið.
3. Hitið smjör á pönnu og steikið laukinn, sveppina, gulrótina og paprikuna í stórum potti í 5 mínútur.
4. Bætið kjötinu út í ásamt ásamt tómötunum, lárviðarlaufunum og hvítvíninu og eldið í 10 mínútur.
5. Bætið loks blaðlauknum út í og eldið á tiltölulega lágum hita í 2-3 klst. Bætið við vatni ef rétturinn verður of þurr.
6. Rétturinn væri venjulega borinn fram með brauði með góðri skorpu.
Rétturinn var mjög góður jafnvel þótt mér finnist vel kryddaður matur yfirleitt bestur.
Да ти е вкусно! (Da ti e vkusno!)
Nú eru 4 af 198 löndum búin!
Afríka: 0 af 54
Asía: 2 af 49
Evrópa: 1 af 45 (46 með Vatíkaninu)
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 1 af 23
Suður Ameríka: 0 af 12
Samtals: 4 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli