Kjúklingavængir og múskatís frá Grenada
Enn og aftur erum við komin í karabíska hafið en nú á eyríki sem nefnist Grenada. Grenada er er norðan við Trínídad og Tóbagó og sunnan við Sankti Vinsent og Grenadíneyjar. Höfuðborgin heitir St. George's. Í landinu búa um 110.000 manns á svæði sem er örlítið minna en Fjallabyggð. Flestir íbúarnir eru afkomendur afrískra þræla. Eina opinbera tungumál ríkisins er enska en flestir tala þó kreólamál. Langflestir Grenadabúar eru kristnir eða um 89%. Íbúarnir eru hrifnir af sterkum mat og karrý eru vinsæl enda eru yfir 1% íbúanna af indverskum ættum. Vinsæl hráefni í Grenadíska rétti eru m.a. kókosmjólk, túrmerik, saltfiskur, síld, saltkjöt, geitakjöt og sjávarfang. Grenada er einn stærsti framleiðandi múskats og mace í heiminum og það má sjá á uppskriftunum sem valdar voru fyrir landið.
Kjúklingavængir frá Grenada
Kjúklingavængir frá Grenada
Marínering:
1/2 laukur, gróft saxaður
2 vorlaukar, gróft saxaðir
2 hvítalauksrif, afhýdd
1/4 tsk timjan
3/4 tsk allrahanda
3/4 tsk salt
1/8 tsk múskat
1/4 tsk kanill
1/2 dl jalapeno í krukku
1/2 tsk svartur pipar
3 dropar sterk chilisósa
1 msk sojasósa
1/2 dl olía
9-10 kjúklingavængir
1. Allt sem á að fara í maríneringuna er sett saman í blandara og blandað saman.
2. Setjið kjúklingavænginga á fat og dreifið marineringunni yfir.
3. Látið marínerast í ísskáp í a.m.k. klukkutíma, helst sólarhring.
4. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og eldið í ofni í 30 til 35 mínútur á 225°C hita.
Kjúklingavængirnir voru afskaplega góðir. Það var gaman að sjá hvernig sterkur jalapeno í ediki spilaði skemmtilega með öllum kryddunum sem venjulega eru notuð í kökur á Íslandi. Þessi réttur fær 🌟🌟🌟🌟 og hálfa stjörnu!
Múskatísinn er í rauninni bara venjulegur ís með 1/8 tsk af salti og 1 tsk af múskati út í.
Ísinn var mjög góður en maður borðar ekki mikið af honum. Ísinn fær 🌟🌟🌟 og hálfa stjörnu.
Þá eru 7 af 198 löndum búin! Bara 191 eftir! Næsta stopp er ekki langt í burtu en þó í annarri heimsálfu.
Afríka: 0 af 54
Asía: 3 af 49
Evrópa: 1 af 45 (46 með Vatíkaninu)
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 0 af 12
Samtals: 7 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli