Lambakarrý frá Sankti Lúsíu

Það hafa sjálfsagt ekki margir heyrt um Sankti Lúsíu. En Sankti Lúsía er eyríki í karabískahafinu. Í landinu búa um 160.000 manns á svæði sem er örlítið minna en Snæfellsbær. Höfuðborgin heitir Castries og opinbera tungumál landsins er enska þótt flestir landsmenn tali franskt kreólamál. Íbúar eyjarinnar eru flestir afkomendur afrískra þræla og kristni er ríkjandi trúarbrögð. Hitinn á eyjunni er nánast hinn sami allt árið, um 29°C. Þegar Kólumbus kom fyrstur Evrópubúa að eyjunni bjuggu þar Karíbar. Sá þjóðflokkur hefur nú nánast þurrkast út, aðeins um 3000 manns búa á annarri eyju í karabíska hafinu, Dómíniku. Matarmenning Sankti Lúsíu er einhvers konar blanda af afrískum, austur-indverskum, frönskum og enskum mat. Karrýréttir eru mjög vinsælir og kartöflur, laukur, sellerí, timjan, kókosmjólk, chili, hveiti og maísmjöl eru vinsæl hráefni í matargerð Sankti Lúsiúbúa.
Sankti Lúsíu var næst dregin í landaáskoruninni. Ég vissi nánast ekkert um þetta land en hafði þó heyrt af því. Það var ekki mjög auðvelt að finna góða uppskrift frá landinu sem hentaði mínu mataræði þokkalega en á endanum fann ég þessa uppskrift sem er frá indverska minnihlutanum á eyjunni. Karrý eru þó almennt mjög vinsæl þarna. Rétturinn var mjög góður en virkilega bragðmikill en þó ekki sterkur. Það má vel minnka kryddmagnið í uppskriftinni og sennilega myndi ég minnka það um þriðjung ef ég myndi elda þennan rétt aftur. 


Lambakarrý frá Sankti Lúsíu

2 msk kanill
1 tsk cuminfræ
1/3 tsk allrahanda
1/3 tsk kóríander
1/6 tsk múskat
1/6 tsk fennel
1/3 tsk kardimommur
1/3 tsk engifer
1/6 tsk mulinn stjörnuanís eða lítill biti af heilum
1/3 tsk cayenne-pipar
örlítill negull
salt og pipar
7-800 g lambakjöt
kókosolía
1 laukur, saxaður
3 hvítalauksgeirar, saxaðir
1 msk engifer, saxaður
2 dósir kókosmjólk
1 dós niðurskornir tómatar

1. Byrjið á að búa til kryddblönduna. Blandið saman 1 msk af kanilnum, cuminfræjunum, allrahandakryddinu, kóríander, múskati, fennel, kardimommum, engifer, anís, cayenne og negulnum saman í skál og geymið til hliðar.
2. Hitið olíu á djúpa pönnu og brúnið kjötið í skömmtum ásamt 1 msk af kanil, salti og pipar.
3. Takið kjötið af pönnunni og geymið til hliðar.
4. Bætið við olíu á pönnuna og steikið lauk, hvítlauk og engifer í nokkrar mínútur.
5. Bætið kryddblöndunni út á og gætið að því að pannan verði ekki of þurr, þá þarf að bæta meiri olíu út á. 
6. Setjið kókosmjólkina út á ásamt tómötunum og leyfið því að malla í nokkrar mínútur.
7. Setjið kjötið út í sósuna og eldið í að minnsta kosti eina og hálfa klst.
8. Smakkið til með salti og pipar áður en rétturinn er borinn fram. Venjulega væri rétturinn borðaður með hrísgrjónum en ég bar fram gufusoðið grænmeti með.

Nú er ég búin með tvö lönd (af 198) í landaáskoruninni. Verst að Sankti Lúsía er of lítil til að sjást á þessu korti!



Ummæli

Vinsælar færslur