Perú - Aji de gallina

Ég var búin að hlakka mikið til að draga Perú því sú matarmenning er ein sú besta í heiminum að mínu mati. 
En Perú er land í Suður-Ameríku og á landamæri að Ekvador, Kólumbíu, Brasilíu, Bólivíu og Chile. Höfuðborg landsins heitir Lima. Í landinu búa um 30 milljónir manna á svæði sem er meira en tólf sinnum stærra en Ísland. Flestir landsmenn tala spænsku, quechua og aymara. Flestir íbúarnir eru af indjánaættum, um 45%, 15% eru hvítir og 37% landsmanna eru blanda af þessu tvennu. Langflestir íbúanna eru kaþólskir. Elsta formenning Ameríku var staðsett í Perú, frá 30. öld f.Kr. til 18. aldar f.Kr. Þar bjuggu einnig Inkar seinna meir. Spánverjar náðu landinu til sín á 16. öld en það fékk svo sjálfstæði árið 1821. Perúsk matargerð er sennilega ekki vel þekkt hér á landi, að minnsta kosti ekki miðað við hversu einstök hún er. Matargerðin er blanda af, auk hefðbundinnar perúskri matargerð, spænskri, ítalskri, þýskri, asískri og vestur-afrískri matargerð. Vinsæl hráefni í perúska matargerð eru maís, kartöflur, rótargrænmeti, kínóa, baunir, hrísgrjón, hveiti, kjöt og kjúklingur, tómatar og chili. Frægasti rétturinn frá Perú er sjálfsagt ceviche. Hér er hins vegar klassískur kjúklingaréttur frá Perú. Venjulega væri brauðrasp í uppskriftinni en ég notaði möndlumjöl í staðinn með góðum árangri. Ég breytti einnig soðnu kartöflunum í ofnbakaðar nípur. 

Aji de gallina

4 kjúklingabringur
750 ml Vatn eða kjúklingsoð
Salt og pipar
Smjör
1 laukur, saxaður
2-3 Aji amarillo-chili eða venjulegur chili og smá túrmerik
2 hvítlauksrif
2 dl möndlumjöl (eða rasp)
2 1/2 dl rjómi
1 1/2 dl malaðar valhnetur
1 1/2 dl rifinn parmesanostur

1. Byrjið á að sjóða kjúklinginn í vatni eða soði í 30-40 mínútur.
2. Takið kjúklinginn úr soðinu og kælið. Geymið soðið þar til síðar. 
3. Rífið kjúklinginn niður þegar hann er orðinn nógu kaldur. 
4. Hitið smjör í potti og steikið lauk, chili og hvítlauk í nokkrar mínútur. 
5. Bætið rifna kjúklingnum út í ásamt möndlumjölinu og rjómanum. Bætið við soði eftir smekk en sósan þarf að vera hæfilega þykk. 
6. Eldið í 10-15 mínútur áður en valhnetunum og parmesanostinum er bætt út í. 
7. Hrærið vel og saltið og piprið eftir smekk. 

8. Berið fram með soðnum kartöflum (eða sterkjuminni rót), soðnu eggi og ólífum. 

Rétturinn var afskaplega góður og ég mæli með honum. Hann fær 🌟🌟🌟🌟 og hálfa stjörnu af fimm mögulegum. 


¡Buen apetito!

Þá eru 8 af 198 löndum búin! Næsta stopp er eitt yngsta land í heiminum... Suður Súdan!

Afríka: 0 af 54
Asía: 3 af 49
Evrópa: 1 af 46
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 1 af 12

Samtals: 8 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur