Taíland - Phat khing


Fyrsta landið sem ég eldaði mat frá var Taíland! Íslendingar ættu að vera vel kunnugir taílenskri matargerð enda eru fjölmargir taílenskir veitingastaðir á landinu. 
Taíland er land í suðaustur Asíu. í landinu búa um 70 milljónir manna á svæði sem er tæplega fimm sinnum stærra en Ísland. Taíland á landamæri að Kambódíu, Laos, Malasíu og Myanmar. Til ársins 1949 hét landið Síam. Í Taílandi búa 62 mismunandi þjóðir (ekki innflytjendur þá) en taílendingar eru þó fjölmennastir og eru um 96% fólksfjöldans. Flestir íbúar Taílands eru búddhatrúar og eina opinbera tungumál landsins er taílenska en fjölmörg tungumál minnihlutahópa eru líka töluð þar. Taílensk menning og matargerð hefur í gegnum aldirnar orðið fyrir áhrifum frá Kína, Indlandi og Kambódíu. Í Taílandi er hinum fimm brögðum gjarnan blandað saman. Þau eru sætt, sterkt, súrt, birtur og salt. Í taílenskri matargerð eru hvítlaukur, chili, lime, sítrónugras, kóríander, galangal, pálmasykur og fiskisósa mikið notuð. Kjarni hverrar máltíðar eru þó hrísgrjónin. Taílendingar borða mikið af fiski, rækjum, kjúklingi og svínakjöti. Frægustu taílensku réttirnir eru sjálfsagt tom yam-súpa, grænt, gul og rautt karrý, massaman karrý og pad thai. 
Taílenski rétturinn sem ég eldaði heitir phat khing (mjög fyndið nafn, ég veit). Rétturinn er mjög vinsæll í Taílandi og í nágrannalandinu Laos en er þó undir miklum áhrifum af kínveskri matargerð. Oftast er kjúklingur notaður í þennan rétt en vegna þess að ég átti til nautagúllas ákvað ég að nota það í staðinn. 

Phat khing
250 g sveppir, skornir í bita
4 hvítlauksrif
2 msk rifinn engifer
1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
600 g kjöt
3 msk kókosolía
2 msk sojasósa
1 msk fiskisósa
1/2 dl nautasoð eða vatn
1 msk erythritol (eða önnur sæta)
1 vorlaukur, í sneiðum

1. Skerið sveppi í bita, fínsaxið hvítlauk, rífið engiferinn og skerið laukinn og kjötið í þunnar sneiðar.
2. Hitið kókosolíu á pönnu og steikið laukinn í henni við meðalháan hita í nokkrar mínútur. 
3. Bætið hvítlauknum út á og hrærið. 
4. Setjið svo kjötið og engiferinn út á og steikið í 2-3 mínútur. 
5. Næst fara sojasósan, fiskisósan, soðið og sætan út á. Hrærið og steikið í örfáar mínútur. 
6. Setjið réttinn á fat, stráið vorlauk yfir og berið fram með blómkálsgrjónum (eða venjulegum hrísgrjónum).

Rétturinn fannst mér mjög góður og ég hafði ekki einu sinni blómkálsgrjón með. Þetta er klassískur réttur sem maður gæti fengið á góðum taílenskum veitingastöðum. 


กินให้อร่อย (gin hâi a-ròi)!

Nú er ég búin með eitt land af 198 löndum, það gera rúmlega 0,5% prósent. 



Ummæli

Vinsælar færslur