Taívan - Shimu yu


Næsta stopp í landaáskoruninni var Taívan. Taívan eða Lýðveldið Kína er ríki á samnefndri eyju. Næstu nágrannar Taívans eru Kína, Filippseyjar og Japan. Höfuðborg landsins heitir Taipei og í landinu búa um 24 milljónir á svæði sem er álíka stórt og allt Norðurland. Frumbyggjar Taívan eru af ástrónesískum uppruna og því skyldir Filippseyingum, Malajum og ýmsum þjóðum í Kyrrahafinu. Í dag er þetta fólk um 530.000 talsins eða um 2,3% Taívana og skiptist í nokkra ættbálka. Það var ekki fyrr en á 17. öld sem Han-kínverjar fóru að flytjast til eyjarinnar og þeir eru í dag yfir 95% þjóðarinnar. Mandarín-kínverska er opinbert tungumál landsins þótt nokkur tungumál taívönsku frumbyggjanna séu viðurkennd. Frumbyggjarnir eru að mestu kristnir en Han-kínverjarnir aðhyllast margir annað hvort Búddhatrú eða Taoisma. Taívan varð ekki sjálfstætt ríki fyrr en árið 1949 en Kína viðurkennir ekki landið sem sjálfstætt ríki enn þann dag í dag. Taívanskur matur er að miklu leyti líkur því sem gerist í Kína, sérstaklega Fujian-héraði. Vinsælt hráefni í taívönskum mat er svínakjöt, kjúklingur, sjávarfang, hrísgrjón og soja. Papaya, stjörnuávöxtur, melónur og sítrusávextir eru vinsælir ávextir. Helstu krydd sem notuð eru sojasósa, hrísgrjónavín, sesamolía, jarðhnetur, chili, kóríander og basilika. Eitthvað er um Japönsk áhrif, en Japan ríkti yfir Taívan á tímabili. 
Rétturinn sem ég eldaði var greinilega undir miklum japönskum áhrifum en í honum voru bæði miso og dashi. 

Shimu yu
750 ml dashisoð
2 cm engifer, smátt saxaður
3 msk miso
salt og hvítur pipar
500 g hvítur fiskur
2 vorlaukar
1 chili

1. Byrjið á að hita dashisoð í potti og bætið engifernum út í.
2. Bætið misomaukinu út í og hrærið vel þar til það leysist upp. 
3. Saltið vel og smakkið til með pipar. 
4. Skerið fiskinn í bita og setjið út í súpuna og berið hana nánast strax fram.
5. Skerið vorlaukinn og chili-inn í sneiðar og setjið út á súpuna þegar hún er komin í skálina. 

Ég bjóst ekki við að finna dashisoð út í búð á Íslandi og ég efast um að það sé til. Ég fann hins vegar miso-bollasúpu í Nettó á Granda með dashi út í og vorlauk. Ég notaði það í staðinn fyrir soðið og miso. Ég veit þá reyndar ekkert hvort súpan var rétt á bragðið en vonandi var hún nálægt því. 

食福 (chih hok)!

Nú eru þrjú lönd af 198 lönd komin í landaáskoruninni:


Afríka: 0 af 54
Asía: 2 af 49
Evrópa: 0 af 45 (46 með Vatíkaninu)
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 1 af 23
Suður Ameríka: 0 af 12
Samtals: 3 af 198

Næsta stopp: Búlgaría!!

Ummæli

Vinsælar færslur