Uxahalakássa frá Níkaragva
Níkaragva (Nicaragua) er land í Mið-Ameríku sem á landamæri að Hondúras og Kosta Ríka. Höfuðborgin heitir Managua. Í landinu búa rúmlega sex milljónir manna á svæði sem er eins og Ísland og eitt auka sett af Þingeyjasýslum. Níkaragva er fjölþjóðasamfélag. Um 69% þjóðarinnar á bæði spænska og indjána að forfeðrum, 17% eru einungis af evrópskum uppruna, 9% eru af afrískum uppruna og aðeins 5% eru einungis af indjánaættum. Mörg tungumál eru töluð í landinu en spænska er þó eina opinbera tungumálið. Landið er eitt það fátækasta landið í Norður-Ameríku vegna borgarastyrjaldar sem þar geisaði á milli 1960 og 1970. Níkaragva framleiðir mikið af kaffi, nautakjöti, baunum, skelfiski og jarðhnetum. Maturinn í Níkaragva er blanda af spænskum mat og mat frumbyggja. Á kyrrahafsströndinni er mikið notað af maís og ávöxtum en við Karabískahafið, þar sem flestir frumbyggjar búa, er mikið notað af sjávarfangi og kókos. Eitt sinn voru naggrísir, iguana-eðlur, skjaldbökuegg, mauraætur og slöngur mikið borðaðar í landinu. Ég mun þó ekki nota þau hráefni.
Uppskriftin sem ég fann frá Níkaragva er gömul uppskrift frá gamalli ömmu frá Níkaragva.
Uxahalakássa
1 1/2 dl ósoðnar hvítar baunir
1 msk svínafeiti (eða önnur feiti eða smjör)
1 kg uxahalar
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 laukur, saxaður
1 tómatur, saxaður
5 dl nautasoð
1 msk allrahanda
salt og pipar
sterk chilisósa eftir smekk
5 dl vatn (jafnvel meira)
1. Setjið baunirnar í pott, ásamt vatni og sjóðið í 1 klst.
2. Undirbúið svo hvítlaukinn og laukinn.
3. Hitið feitina í stórum potti og brúnið uxahalana í henni.
4. Setjið uxahalana í annan stóran pott og steikið laukinn og hvítlaukinn í fyrri pottinum.
5. Þegar laukurinn er tilbúinn fer hann yfir í pottinn með uxahölunum.
6. Saxið tómatinn niður og setjið út á kjötið.
7. Bætið við nautasoðinu og kryddunum.
8. Sjóðið í 1 1/2 klst áður en baunirnar eru settar út á.
9. Sjóðið réttinn í 1 1/2 klst í viðbót og bætið vatni út í ef þörf krefur.
Rétturinn var mjög sérstakur og tekur mjög langan tíma. Ég get því ekki mælt með honum.
¡Buen apetito!
Nú eru 5 af 198 löndum búin! Við förum svo aftur til Asíu því næsta stopp er Víetnam!
Afríka: 0 af 54
Asía: 2 af 49
Evrópa: 1 af 45 (46 með Vatíkaninu)
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 2 af 23
Suður Ameríka: 0 af 12
Samtals: 5 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli