Víetnam - Pho ga


Ég var búin að hlakka mikið til að draga Víetnam í landaáskoruninni. Ég gat ekki annað en valið uppáhalds súpuna mína pho ga. Víetnam er líka mjög sérstakt land fyrir mig því þar býr litla stelpan sem ég styrki í gegnum SOS-barnaþorpin.

Víetnam (Việt Nam) er land í Suðaustur-Asíu, sem á landamæri að Kína, Loas og Kambódíu. Höfuðborg landsins heitir Hanoí og í landinu búa um 93 milljónir manna sem gerir landið að 13. fjölmennasta landi heims. Allt þetta fólk kemst fyrir á landssvæði sem er á við þrjú Íslönd. Flestir íbúar Víetnam eru Víetnamar (86%) en 53 aðrar þjóðir eru þó í landinu sem allar hafa sína eigin menningu, tungumál og siði. Flestir íbúanna eru trúlausir, um 73% en stærstu trúarbrögð landsins er Búddhismi, um 12%. Víetnamskur matur byggir á hinum fimm brögðum, sterkt, súrt, biturt, salt og sætt. Algeng hráefni í matargerðina eru fiskisósa, rækjumauk, sojasósa, hrísgrjón, ferskar kryddjurtir, ávextir og grænmeti. Helstu krydd sem eru notuð eru sítrónugras, engifer, mynta, kóríander, kanill, chili, lime og basilika. Víetnömsk matargerð er mjög fersk og bragðmikil og þykir mjög holl. 

Pho ga

Súpan
Vatn
4 kjúklingabringur
1/2 kubbur kjúklingakrafur
1 laukur, afhýddur en heill
100 g engifer, afhýtt og skorið í tvennt
2 stjörnuanísar
2 kanilstangir
1 tsk kóríanderfræ
1 tsk fennelfræ
1 tsk svört piparkorn
1 svört kardimomma
smá limebörkur
3 tsk salt (eða meira)
1 tsk sæta
2 msk fiskisósa

Meðlæti
1/2 rauðlaukur, í þunnum sneiðum
ferskur kóríander
1 vorlaukur, í þunnum sneiðum
Shirataki núðlur (eða hrísgrjónanúðlur)
fersk basilika
ferskur chili, í sneiðum
baunaspírur
fiskisósa
hoisinsósa
srirachasósa
chilisósa

Fyrstu þrjú skrefin eru ekki nauðsynleg en gera súpuna tærari.
1. Byrjið á því að setja vatn í stóran pott og hita vatnið að suðu. 
2. Skerið kjúklingabirngurnar í þunnar sneiðar og setjið út í vatnið og sjóðið í um 10 mínútur.
3. Hellið öllu í pottinum í sigti og skolið kjúklinginn. 
4. Skolið pottinn og setjið nýtt vatn í hann og hitið að suðu.
5. Setjið kjúklinginn út í.
6. Steikið engiferið og laukinn á vel heitri pönnu þar til það brúnast. 
7. Bætið lauknum og engiferinu út í pottinn og sjóðið í örfáar mínútur.
8. Setjið næst allt kryddið út í pottinn ásamt sætunni og fiskisósunni og sjóðið í nokkrar mínútur í viðbót.
9. Smakkið til með salti áður en súpan er borin fram. 
10. Ýmislegt meðlæti er sett ofan í súpuskálina en mikilvægast af því sem upp er talið hér að ofan er kóríander, lime, vorlaukur, chili eða chilisósa og baunaspírur, að mínu mati. 

Þessi súpa er algjör ofurfæða og ótrúlega bragðgóð. Hún fær fimm stjörnur af fimm mögulegum. 


Ăn ngon nhé!

Nú eru 6 af 198 löndum búin. Að sjálfsögðu verður farið aftur þvert yfir heiminn og til karabískahafsins því næsta stopp er Grenada. 



Afríka: 0 af 54
Asía: 3 af 49
Evrópa: 1 af 45 (46 með Vatíkaninu)
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 2 af 23
Suður Ameríka: 0 af 12
Samtals: 6 af 198



Ummæli

Vinsælar færslur