Argentína - Steik með Chimichurri
Argentína er land í Suður-Ameríkur sem á landamæri að Chile, Paragvæ, Bólivíu, Brasilíu og Úrúgvæ. Höfuðborg landsins heitir Búenos Aíres og í landinu búa um 43 milljónir manna á svæði sem er um 27 sinnum stærra en Ísland. Menn hafa búið í Argentína a.m.k. í 12.000 ár og áður en Evrópubúar komu þar fyrst bjuggu fjölmargir ættbálkar frumbyggja í landinu. Spánverjar áttu landið þar til það varð hluti af konungsdæminu í Perú 1776 og landið fékk svo sjálfstæði árið 1810. Landið iðnvæddist hratt á fyrri hluta 20. aldar. Mikil átök voru á stjórnmálasviði landsins alla 20. öldina og landið fór m.a. í stríð við Bretland árið 1982 um Falklandseyjar. Landið varð svo gjaldþrota árið 2001 og landið er enn í nokkru basli fjárhagslega. Upp úr þessu öllu hafðist það þó að Argetnína náði að eignast fyrsta kvenforseta í heimi, Isabel Perón. Hún var þó ekki lýðræðislega kjörin og var vægast sagt umdeild. Flestir íbúar landsins eru afkomendur Evrópubúa og opinbert tungumál landsins er spænska. Landið er ríkt af alls kyns auðlindum t.d. silfri. Veðurfarið er mjög margbreytilegt því í Argentínu er bæði hægt að finna regnskóga, eyðimerkur og jökla. Argentínubúar eru almennt þokkalega vel menntaðir og allir fara í skóla og eru læsir. Eins eru tekjur íbúanna frekar góðar. Menning Argentínu byggir að mestu á Evrópskri menningu en þó eru einhver áhrif frá frumbyggjum og Afríkubúum. Matarmenning Argentínu er mjög evrópsk en þó eru ýmsir réttir komnir frá frumbyggjum landsins s.s. empanadas, locro, humitas og yerba mate. Asado-grill er mjög vinsæl hefð í landinu. Argentínubúar borða mest af rauðu kjöti allra þjóða heims. Eins er það stærsta vínframleiðsluland heims utan Evrópu. Það er því vel við hæfi að fá sér rauðvínsglas með rétti landsins, steik með chimichurri og jalapenomæjónesi.
120 ml ólífuolía (eða önnur olía)
4 hvítlauksrif
1 1/2 msk hvítvínsedik
1/2 tsk salt
1/4 tsk cumin
1/4 tsk chiliflögur
1/4 tsk svartur pipar
1 dl ferskur kóríander
1/2 dl ferskt óreganó eða 1/2 tsk þurrkað
flatlaufa steinselja eða venjuleg steinselja
1. Blandið öllu saman í blandara. Bætið við steinselju eftir þörfum.
Jalapenomæjónes
2 jalapeno
1 eggjarauða
2 tsk limesafi
1/2 tsk dijonsinnep
salt og pipar
1-1 1/2 dl olía (meira ef þarf)
1. Hitið ofninn í 200°C og bakið jalapenoið í u.þ.b. 12-15 mínútur.
2. Kælið jalapenoið og takið hýðið af.
3. Setjið allt nema olíuna í skál.
4. Setjið smá af olíunni í einu og blandið með töfrasprota á milli.
Þetta tvennt er svo borið fram með vel grillaðri (eða steiktri) steik og grænmeti að eigin vali. Ég valdi ofnbakað grasker og jarðskokka. Þetta var mjög góður réttur sem ég mun gera aftur við tækifæri.
¡Buen apetito!
Nú eru 16 af 198 löndum búin. Næsta land er eyja nokkru norðar.
Afríka: 2 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 3 af 46
Eyjaálfa: 2 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 2 af 12
Samtals: 16 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli