Fídjieyjar - Sítrusbakaður fiskur

Það hafa örugglega flestir heyrt um Fídjíeyjar... en veit maður eitthvað meira en að þar er heitt og margar góðar sandstrendur til að liggja á?

Hefðbundin fídjísk hús.
Fídjieyjar eru eyríki í Suður-Kyrrahafi. Næstu lönd eru Vanúatú, Tonga og Túvalú. Ríkinu tilheyra 332 eyjar en 110 þeirra eru byggðar. Eyjarnar hafa verið byggðar frá því á öðru árþúsundi f. Kr. Fyrstu Evrópubúarnir sem komu á eyjarnar voru Hollendingar, nánar tiltekið Abel Tasman (sá sem Tasmanía heitir eftir). Bretland gerði ríkið að nýlendu sinni árið 1874 og fluttu þangað inn verkamenn frá Indlandi til að vinna á sykurplantekrum. Í dag eru því 37,5% íbúa Fídjieyja af indverskum ættum. 56,8% landsmanna eru þó frumbyggjar. Opinber tungumál í landinu eru þrjú talsins, enska, fídjíska og hindi-fídjíska. Lansmenn eru um 910.000 talsins og eyjarnar eru allar til samans álíka stórar og tveir Vestfirðir. Höfuðborg landsins heitir Suva og landið varð sjálfstætt ríki árið 1970. Fídjieyjar eru vinsæll ferðamannastaður enda fer hitinn sjaldan undir 22°C. Ýmis vandamál eru þó í landinu. Ríkisstjórn landsins þykir spillt og tilraunir til valdaráns eru algengar. Deilur eru tíðar á milli frumbyggja landsins og Fídjibúa af indverskum ættum. Eins glímir landið við mikinn offituvanda en 36,4% þjóðarinnar er of feit og 71,2% íbúa eru í yfirþyngd. Menning Fídjieyja er einstök, enda var landið frekar einangrað lengi vel. Fjölskyldan var það allra mikilvægasta og athygli vekur að þar var hvorki feðra- né mæðraveldi heldur jafnrétti þegar kom að erfðum. Kynin höfðu þó alltaf mismunandi hlutverk. Matargerð Fídjíbúa innihélt mikið af rótargrænmeti, grænemti, kókosafurðum og ávöxtum ásamt villisvínum, fuglum og sjávarfangi. Matur var yfirleitt eldaður í stórum eldofnum eða í holum í jörðinni. í dag eru indverskir og vestrænir réttir mjög vinsælir á eyjunum. Mikil sykurs er neytt á eyjunum - sem skýrir líklega offituvandann. 90% barna á Fídjíeyjum neyta sykraðra drykkja á hverjum einasta degi. 

Sítrusbakaður fiskur
400 g fiskflak
salt og pipar
1 sítróna
1 appelsína eða mandarína
1 1/2 dl kókosrjómi
bananalauf (eða álpappír)

1. Setjið bananalauf eða álpappír í eldfastmót og leggið fiskflökin þar ofan á. 
2. Saltið fiskinn og piprið. 
3. Skerið sítrónuna og appelsínuna í þunnar sneiðar og leggið yfir fiskinn. 
4. Hellið kókosrjómanum yfir.
5. Lokið bananalaufunum eða álpappírnum og eldið fiskinn í um 20 mínútur á 180°C. 
6. Berið fram með rótargrænmeti. 

Rétturinn var mjög frísklegur. Hann var mjög mildur og einfaldur en bragðgóður. Ég gef honum ✩✩✩✩ stjörnur af fimm möguleikum. Ég gæti hugsað mér að gera hann aftur. 

Da kana!

Nú eru 13 lönd af 198 búin og að minnsta kosti eitt landið komið frá hverri heimsálfu! Næst stoppum við í frysta skiptið í Mið-Austurlöndum!

Afríka: 2 af 54
Asía: 3 af 49
Evrópa: 3 af 46
Eyjaálfa: 1 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 1 af 12

Samtals: 13 af 198

Ummæli

  1. Þessi réttur kom skemmtilega á óvart. Sæt appelsína á móti söltum og pipruðum fiski er bara mjög gott.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur