Fiskur frá Palá
Palá. Það er eyja í Kyrrahafi... Furðulegt hvað það er mikið til af löndum sem ég veit bara ekkert um. En það er það sem er svo skemmtilegt við þessa áskorun - að kynna sér löndin sem maður eldar rétti frá.
Palá er eyríki í Kyrrahafi og næstu lönd eru t.d. Filippseyjar og Indónesía. Höfuðborg landsins heitir Ngerulmud og í landinu búa tæplega 18.000 manns á svæði sem er aðeins stærra en Borgarfjarðarhreppur. Íbúum hefur reyndar farið fækkað undanfarinn áratug. Eyjarnar fengu sjálfstæði frá Bandaríkjunum árið 1994 en eru enn í dag mjög háðar fjárhagsaðstoð þaðan. Flestir landsmenn eru Paláískir að uppruna en stærsti minnihlutahópurinn eru Filippseyingar. Opinber tungumál landsins eru enska og paláíska, sem er skyld mörgum tungumálum í Indónesíu. Evrópumenn fundu eyjarnar á 16. öld og þá hafði búið fólk á eyjunum í um 2.500 ár. Spánverjar áttu eyjarnar lengi vel og þær voru hluti af spænsku Austur-Indíum til 1898. Palá er í regnskógabeltinu og þar er því frekar jafn hiti allt árið um kring - u.þ.b. 28°C. Á Palá erfist allt í kvenlegg og konur gegna mjög mikilvægu hlutverki í flestu í samfélaginu á eyjunum. Matargerðin á Palá einkennist af rótargrænmeti, fiski og svínakjöti. Vestrænn matur er þó mjög vinsæll.
5-600 g hvítur fiskur
3 hvítlauksrif, í sneiðum
2 cm engifer, í sneiðum
3 msk sesamolía
3 msk sojasósa
bananalauf eða álpappír
1. Byrjið á að setja álpappír í eldfast mót og fiskinn þar ofan á.
2. Dreifið hvítlauknum og engifernum yfir fiskinn ásamt sojasósunni og sesamolíunni.
3. Lokið álpappírnum og eldið í ofni í 15-20 mínútur á 180°C.
4. Berið fram með meðlæti að eigin vali.
Ég bar fiskinn fram með ofnbökuðum lauk, jarðskokkum og rósakáli. Rétturinn var mjög asískur, einfaldur en bragðgóður.
Nú eru 15 af 198 löndum búin! Næsta stopp er í töluvert stærra landi sem er meira en 16.000 km í burtu!
Afríka: 2 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 3 af 46
Eyjaálfa: 2 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 1 af 12
Samtals: 15 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli