Kúveit - Machboos Lahem Ma'a Dakkous


Réttur dagsins var frá Kúveit. Enn eitt landið sem ég vissi voðalega lítið um fyrir utan staðsetninguna og að þar væri olía. En vegna þess að landið er í Miðausturlöndum vissi ég að maturinn hlyti að vera dásamlegur. Kúveit er við Persaflóa og á landamæri að Írak og Sádi Arabíu. Þar búa rúmlega 4 milljónir manna á svæði sem er alíka stórt og Austurland. Kúveit er frekar ríkt land enda mikið af olíu þar að finna. Höfuðborg landsins heitir Kúveitborg og opinbert tungumál landsins er arabíska. Eitt sem er mjög sérstakt við landið er hversu margir innflytjendur eru þar. Aðeins um 31% landsmanna eru upphaflega frá Kúveit. 27,9% landsmanna koma frá öðrum löndum í Miðausturlöndum, tæp 2% eru frá Afríku og tæp 38% landsmanna eru frá öðrum Asíulöndum. Stærsti hópurinn í landinu eru því Suður- og Austur-Asíubúar. Opinber trúarbrögð landsins er íslam og þar er þingbundin konungsstjórn með lýðræðislega kjörið þjóðþing. Landið er að mestu eyðimerkurland og á metið í hæsta hita í Asíu, 54,4°C. Menningin í Kúveit er mjög blómleg og Kúveit er nokkurs konar "Hollywood" Miðausturlanda. Landið hefur alltaf verið mikið fjölmenningarland og íbúar hófu snemma siglingar og verslun til annarra landa. Matarmenning landsins er skemmtileg blanda af arabískum, persneskum, indverskum og miðjarðarhafsmat. Sjávarfang og brauð er sérstaklega vinsælt, sem og rétturinn sem ég kaus að prófa - machboos. Machboos er þó ekki einhver einn sérstakur réttur, bara kjöt með sósu á hrísgrjónum. Ég hafði að sjálfsögðu ekki hrísgrjón hjá mér heldur blómkáls- og brokkolígrjón sem ég keypti tilbúin í Gló. Rétturinn er örlítið flókinn því það þarf að gera margt í einu. Hann er samt algjörlega þess virði að elda!

Machboos lahem ma'a dakkous


Kjötið og hrísgrjón
2 lambaskankar
1 kanilstöng
2 negulnaglar
4 heilar kardimommur
1 laukur, skorinn í fernt
1 heil þurrkuð svört persnesk sítróna (til í Krydd- og tehúsinu)
salt
1 tsk kardimommuduft
olía
3 dl hrísgrjón eða blómkálsgrjón
smá saffron (eða túrmerik) í 1 dl af heitu vatni

Heshew
1/2 dl rúsínur
70 g furuhnetur
1 laukur, saxaður
1 tsk cumin
1 tsk kardimommur
1 tsk röspuð svört sítróna
salt

Sósan
olía
1 laukur, saxaður
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
1/2 msk hvítvínsedik
1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar
1 msk tómatmauk
1 dl af soði
salt

1. Byrjið á að setja kjötið í pott ásamt nógu miklu vatni svo það fljóti yfir kjötið. 
2. Setjið kanilstöngina, negulinn, kardimommurnar, laukinn og svörtu sítrónuna út í vatnið. Best er að stinga nokkur göt á sítrónuna áður en hún fer út í.
3. Sjóðið þetta í 1 og 1/2 klst eða þar til kjötið er orðið meyrt. 
4. Á meðan kjötið sýður er gott að byrja á sósunni. Þá þarf að steikja laukinn og hvítlauk í um 5 mínútur áður en edikið og tómatarnir eru settir út á. 
5. Setjið svo smá af soði úr pottinum með lambinu út í sósuna. Sósan má malla á meðan kjötið er að eldast. Saltið eftir smekk. Það getur einnig verið gott að setja örlitla sætu út í hana. 
6. Næst er gott að gera heshew-ið. Þá er laukur brúnaður í olíu á pönnu. 
7. Sejtið svo furuhneturnar út á.
8. Næst fara rúsínurnar ásamt kryddunum og saltinu. Smakkið til.
9. Setjið kjötið á fat þegar það er orðið tilbúið. 
10. Takið nýjan pott og hitið olíu í honum. 
11. Nuddið kardimommudufti á kjötið og steikið það svo í stutta stund í olíunni. 
12. Takið kjötið upp úr og setjið hrísgrjónin í pottinn. 
13. Hitið vatn og setjið saffronið út í og geymið í stutta stund. 

14. Hellið vatninu yfir hrísgrjónin og sjóðið þar til þau eru tilbúin (mjög stuttur tími fyrir blómkálsgrjón. 

Eins og ég sagði áðan er þessi réttur örlítið flókinn en algjörlega þess virði að prófa. Mér fannst hann æðislegur, sérstaklega heshew-ið. Það var líka gaman að prófa svörtu persnesku sítrónuna. Hún var mjög bragðgóð og gerði mikið fyrir réttinn. Ef þær finnast ekki væri mögulega hægt að skipta þeim út fyrir súmak. 


بالهناء والشفاء!

Nú eru 14 af 198 löndum búin! Næsta stopp er aftur í Eyjaálfu!

Afríka: 2 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 3 af 46
Eyjaálfa: 1 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 1 af 12


Samtals: 14 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur