Lettland - Kúrlenskt stroganoff
Í þetta sinn stoppaði ég í Lettlandi. Það að finna góða uppskrift frá Lettlandi var eins erfitt og ég ímyndaði mér að Suður-Súdan yrði. Lettar borða víst frekar mikið af kolvetnum.
Lettland er annars land í Evrópu og á landamæri að Eistlandi, Litháen og Rússlandi. Í landinu búa um 2 milljónir manna á svæði sem er örlítið stærra en Austur-, Vestur- og Norðurland samanlagt. Höfuðborgin heitir Riga og eina opinbera tungumál landsins er lettneska þótt 25% íbúa landsins séu Rússar. Landið fékk einmitt sjálfstæði frá Sóvetríkjunum árið 1991. Upphaflega bjuggu tvær þjóðir í landinu, Lettar og Líflendingar. Líflenska var töluð í landinu þar til síðasti mælandinn dó árið 2013. Það tungumál var skylt finnsku og eistnesku. Lettneska er hins vegar baltneskt tungumál og skylt Litháísku. Flestir Lettar eru kristinnar trúar.
Lettnesk matargerð er lík matargerð þjóðanna í kring. Vinsælt hráefni í matargerðina eru kartöflur, hveiti, bygg, kál, laukur, egg, svínakjöt, fiskur og rúgbrauð. Ég valdi uppskrift frá Kúrlandi, sem er vestasta hérað Lettlands.
Kúrlenskt stroganoff
50 g beikon, í bitum
smjör
1 laukur, saxaður
500 g svínakjöt, í strimlum
1 msk möndlumjöl
2 dl nautasoð
1 súr gúrka, í litlum bitum
100 g 18% sýrður rjómi
salt og pipar
steinselja
1. Byrjið á að steikjar beikon á pönnu þar til það verður gullið.
2. Bætið við smjöri á pönnuna og steikið laukinn.
3. Skerið svínakjötið í strimla og bætið út á pönnuna.
4. Steikið í nokkrar mínútur áður en möndlumjölið er bætt út í.
5. Hellið soðinu út á og sjóðið réttinn þar til kjötið er tilbúið.
6. Þegar kjötið er tilbúið er súru gúrkunni og sýðra rjómanum bætt út í. Eldið í 2-3 mínútur áður en rétturinn er borinn fram.
7. Smakkið til með salti og pipar og bætið steinselju út á ef vill.
Með réttinum bar ég fram ofnbakaðan blaðlauk, jarðskokka og gulrætur.
Rétturinn var alls ekki slæmur en hentar sjálfri mér ekki því það er mjög mikið beikonbragð af honum.
Labu apetīti!
Nú eru 11 af 198 löndum búin! Næst förum við til eins af uppáhalds löndunum mínum!
Afríka: 1 af 54
Asía: 3 af 49
Evrópa: 3 af 46
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 1 af 12
Samtals: 11 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli