Marshalleyjar - Makadamíubaka með kókosrjóma
Marshalleyjar var eitt af þeim löndum sem ég vissi bara ekki neitt um fyrir utan sirka staðsetninguna. Ég komst þó að ýmsu skemmtilegu og merkilegu um landið.
Marshalleyjar eru eyríki í Vestur-Kyrrahafi, norðan við Nárú og Kíríbatí og austan við Míkrónesíu. Höfuðborg landsins heitir Majuro og í landinu búa rúmlega 50.000 manns á svæði sem er einum ferkílómetra minna en Tálknafjarðarhreppur. Fyrstu menn stigu fæti á eyjarnar á 2. árþúsundi f.Kr. Spánverjar fundu eyjarnar fyrstir Evrópubúa árið 1529 sem létu þó eyjarnar vera í bili. Eyjarnar heita eftir breskum skipstjóra að nafni John Marshall, sem kom þangað árið 1788. Það var svo ekki fyrr en 1874 sem Spánn gerir tilkall til eyjanna. Þjóðverjar eignuðust eyjuna í lok 19. aldar en Japan hertók eyjuna í seinni heimstyrjöldinni. Árið 1944 náðu Bandaríkin eyjunum af Japönum. Í kalda stríðinu gerðu Bandaríkjamenn kjarnorkutilraunir við eyjarnar, nánar tiltekið við Bikini-eyju. Enn í dag standa yfir málaferli vegna þessara tilrauna, sem höfðu mjög slæm áhrif á heilsu íbúanna. Ríkið fékk sjálfstæði árið 1986. Yfir 90% íbúa eyjanna eru af marshalleyskum uppruna og marshallíska er eitt af tveimur opinberum tungumálum landsins, hitt er enska. Menning Marshalleyja er einstök. Eyjarnar voru tiltölulega einangraðar áður en Evrópubúar komu þangað fyrst. Hefðbundinn klæðnaður var einungis pils, bæði fyrir karla og konur en börn voru nakin. Eins og tíðkast meðal margra hópa frumbyggja í Eyjaálfu erfist allt í kvenlegg og fjölskyldubönd eru sterk. Matarmenning Marshalleyja er mjög lík því sem gerist annars staðar í Kyrrahafi. Vinsælustu hráefnin eru kókos, sjávarfang, bananar og bananalauf, makadamíuhnetur, kál, kartöflur og niðursoðnar kjötafurðir. Vestrænn og austur-asískur matur er mjög vinsæll.
Frá Marshalleyjum valdi ég að gera eftirrétt - makadamíuböku. Þar sem ég borða sem minnst af kolvetnum hafði ég hana sykurlausa og sleppti bökubotninum. Venjulega ætti nefnilega að vera hefðbundinn bökubotn. Vegna þess hve makadamíuhnetur eru dýrar á Íslandi gerði ég líka bara 1/4 úr upprunalegu uppskriftinni. Ég setti þó 1/2 uppskrift hér á bloggið fyrir þá sem tíma að kaupa mikið af hnetunum. Ég hafði þessa böku í eftirrétt á eftir F'rell am Rèisleck frá Lúxemborg. Mér finnst svo gott að fá eitthvað sætt á eftir fiski.
Makadamíubaka
Fylling
300 g makadamíuhnetur
2 egg
2 msk sykur/sæta
2 msk sykur/sæta
4 msk síróp (fibersíróp fyrir sykurlausa)
1/2 tsk vanilludropar
4 msk kókosmjöl
Kókosrjómi
1 og 1/2 dl rjómi, kaldur
1 1/2 msk kókosmjólk, köld
1. Byrjið á að setja makadamíuhneturnar á bökunarplötu og ristið þær í ofni í 5 mínútur á 175°C. Setjið svo til hliðar.
2. Þeytið saman egg og sætu og setjið svo sírópið og vanilludropana út í og hrærið.
3. Setjið kókosmjöl í botninn á formi og hellið eggjahrærunni út á.4. Dreifið hnetunum yfir og bakið í ofni á 180°C í 15 mínútur.
5. Þeytið rjóma og kókosmjólk og berið fram með kökunni.
Þessi baka var of mikið bökuð hjá mér og ég stytti tímann aðeins hér. Hún var annars bara mjög góð og ég mun örugglega prófa að gera hana aftur einhvern tímann.
Þá eru 21 land af 198 löndum heimsins búin! Næsta stopp er í sömu heimsálfu en mjög afskekkt - Túvalú! Ég vona að ég fari að draga aðeins stærri lönd svo landakortið fari að litast eitthvað.
Afríka: 3 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 4 af 46
Eyjaálfa: 3 af 14
Norður Ameríka: 4 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12
Samtals: 21 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli