Miðbaugs-Gínea - Piparsúpa
Miðbaugs-Gínea… er við miðbaug?
Nei, reyndar ekki alveg. Miðbaugs-Gínea er land í Afríku sem á landamæri að Kamerún og Gabon og er örlítið norðan við miðbaug. Í landinu búa um 850.000 manns á svæði sem er örlítið minna en Suðurland og Vesturlands samanlagt. Höfuðborgin heitir Malabo. Landið varð spænsk nýlenda árið 1778, áður höfðu Portúgalir átt landið frá 1474. Landið fékk sjálfstæði árið 1968. Opinber tungumál landsins eru þrjú, spænska, portúgalska og franska. Mörg önnur tungumál eru þó töluð í landinu, t.d. talar fjöldi fólks Fang-tungumálið sem er tungumálið sem heyrist í lagi Shakiru, Waka Waka (This Time for Africa). Yfir 90% landsmanna eru kristnir, flestir kaþólskir. Á 20. öld byggðist efnahagur landsins upp á ræktun kaffis og kakós. Árið 1996 uppgötvuðust olíulindir í landinu og verg landsframleiðsla landsins er nú sú hæsta í öllum löndum Afríku sunnan Sahara. Því miður er peningunum gríðarlega misskipt. Þá hefur einnig verið flokksræði í landinu frá 1982 og stjórnmálin hafa verið stormasöm. Matarmenning Miðbaugs-Gíneu er blanda af mat ættbálkanna á svæðinu og spænskum mat. Fiskur, kjúklingur og villibráð eru mjög algeng hráefni ásamt banönum, sætum kartöflum, brauðávexti, jarðhnetum og sniglum. Ég kaus fisk og gerði Piparsúpu sem er mjög vinsæl í allri Vestur-Afríku.
olía eða smjör
3 litlir laukar, saxaðir
3 dl vatn
2 tómatar, í bitum
1 rauð paprika, í bitum
1/4 tsk cayenne
1/2 habanero-chili eða 1 venjulegur
1 lárviðarlauf
1/4 tsk basilika
salt og pipar
1/2 tsk paprika
1/2 tsk gíneupipar (Grains of paradise), má sleppa
1/4 tsk rósmarín
safi úr hálfri sítrónu
500 g fiskur, í bitum
1. Steikið lauk í potti í nokkrar mínútur.
2. Setjið restina af hráefnunum, fyrir utan fiskinn, í pottinn og sjóðið þar til grænmetið er orðið mjúkt.
3. Setjið fiskinn út í pottinn og hafið hitann lágan.
Súpan heitir piparsúpa svo hún á að rífa aðeins í. Styrkleikanum má auðvitað stjórna og setja meira eða minna af chili en stendur í uppskriftinni. Þetta er annars fínasta fiskisúpa en alveg í hefðbundnari kantinum.
Svo er hér upprunalega lagið Waka Waka eða Zamina mina frá 1986, sem Shakira gerði vinsælt árið 2010 í tengslum við HM í fótbolta. Hljómsveitin er reyndar frá Kamerún en lagið er sungið á Fang-tungumálinu sem um 700.000 manns tala í Miðbaugs-Gíneu.
Svo er hér upprunalega lagið Waka Waka eða Zamina mina frá 1986, sem Shakira gerði vinsælt árið 2010 í tengslum við HM í fótbolta. Hljómsveitin er reyndar frá Kamerún en lagið er sungið á Fang-tungumálinu sem um 700.000 manns tala í Miðbaugs-Gíneu.
Þá eru 18 af 198 löndum búin! Næsta stopp er í Paragvæ!
Afríka: 3 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 3 af 46
Eyjaálfa: 2 af 14
Norður Ameríka: 4 af 23
Suður Ameríka: 2 af 12
Samtals: 18 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli