Paragvæ - Bife koygua



Paragvæ er land í Suður-Ameríku sem á landamæri að Argentínu, Brasilíu og Bólivíu. Höfuðborg landsins heitir Asúnsjón og í landinu búa tæplega 7 milljónir manna á svæði sem er um fjórum sinnum stærra en Ísland. Áður en Spánverjar komu til Paragvæ árið 1516 höfðu nokkrir ættbálkar búið á svæðinu í þúsundir ára, m.a. Gvaraníar. Opinberu tungumál landsins eru einmitt spænska og gvaraní en þó er síðarnefnda tungumálið útbreiddara. 95% íbúar landsins eru blanda af spænskum innflytjendum og frumbyggjum. Landið fékk sjálfstæði frá Spáni árið 1811. Stjórnmálin í landinu hafa verið stormasöm allt frá sjálfstæði. Fyrst ríki einræðisherra í landinu til ársins 1840, svo ríktu ýmsar herforingjastjórnir í landinu. Árið 1864 braust út stríð á milli Paragvæ og bandalags Úrúgvæ, Brasilíu og Argentínu sem endaði með því að milli 60 og 70% landsmanna dóu og landið missti 140.000 fkm. Á 20. öld stjórnuðu ýmsar herforingjastjórnir allt til ársins 1989. Fyrstu frjálsu kosningarnar voru haldnar árið 1993 og landinu hefur gengið nokkuð vel eftir það, m.a. hefu hagvöxtur verið frekar mikill. Fátækt er þó enn frekar mikil í landinu. Mikið af soja er framleitt í landinu ásamt nautakjöti. Paragvæ er einnig næst stærsti framleiðandi stevíu í heiminum. Matarmenning Paragvæ er blanda af spænskum mat og mat Gvaraní-frumbyggjanna. Mikið er notað af rótargrænmeti, maís, osti, lauk, papriku, mjólk, kjöti, fiski og eggjum í matargerðina. Asado-grill er mjög vinsælt eins og í nágrannalandinu Argentínu. Rétturinn sem ég valdi frá landinu nefnist bife koyuga. 

Bife koygua

2 laukar, saxaðir
smjör eða olía
1 grænmetisteningur
2 1/2 dl vatn
4 tómatar, í liltum bitum
1/2 tsk óreganó
salt og pipar
4 mínútusteikur
4 egg
steinselja, má sleppa

1. Byrjið á að brúna lauk í smjöri eða olíu á stórri pönnu.
2. Bætið grænmetisteningnum og vatninu út á og sjóðið í nokkrar mínútur ásamt tómötunum. 
3. Kryddið og setjið svo steikurnar út á pönnuna og sjóðið undir loki í um 15 mínútur. 

4. Setjið eggin út á og látið þau eldast í um 5 mínútur áður en rétturinn er borinn fram. Steinseljan er svo sett út á í lokin. 

Mér fannst þetta allt í lagi réttur. Hann er mjög einfaldur en mér finnst samt eggin ekki gera neitt sérstakt aukalega fyrir hann. Ég mun sennilega ekki elda hann aftur því þetta var eiginlega ekkert nýtt eða einhver stórkostleg uppgötvun. 


¡Buen apetito!

Þá eru 19 af 198 löndum búin! Það gera næstum því 10%. Næsta stopp er svo Lúxemborg!




Afríka: 3 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 3 af 46
Eyjaálfa: 2 af 14
Norður Ameríka: 4 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12

Samtals: 19 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur