Suður-Súdan - Shaiyah og eggaldinsalat með hnetusmjöri


Þegar ég dróg Suður Súdan var ég strax mjög efins um að finna einhvern góðan mat frá landinu. Það bætti ekki úr skák að í þessu mjög svo unga landi er nú borgarastríð og hungursneyð. Ég sá fyrir mér fátækt eyðimerkurland. Þegar ég fór hins vegar að kynna mér landið betur komst ég að því að landið er ekkert eyðimerkurland eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Myndin er af þorpi í hinu gríðarstóra Sudd-fenjasvæðinu fyrir miðju landinu.  Landið þó reyndar eitt fátækasta ríki heims. Landið á annars landamæri að Súdan, Eþíópíu, Kenía, Úganda, Mið-afríkulýðveldinu og Austur-Kongó. Höfuðborgin heitir Júba og í landinu búa um 12,3 milljónir manna á svæði sem er um sex sinnum stærra en Ísland. Eins og áður sagði er landið eitt það fátækasta í heiminum og þar hefur verið borgarastyrjöld síðan 2013. Landið fékk sjálfstæði frá Súdan árið 2011 og töluvert hefur verið um átök á milli þjóðflokka landsins, sem eru alls 64 talsins. Opinbert tungumál landsins er enska en önnur viðurkennd tungumál landsins eru yfir 60 talsins og eru tungumál eins og Bari, Dinka, Luo, Murle, Nuer og Zande. Þau tilheyra flest Nílósaharamálum. Hér er því um að ræða mikið fjölmenningarland. Helstu trúarbrögðin í landinu eru kristni, íslam og hefðbundin andatrú. Matarmenning Suður-Súdan hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá austur-afrískri og arabískri matargerð í gegnum tíðina. Flestir réttir eru annað hvort kjöt- eða fiskkássa ásamt grænmeti sem meðlæti og asida, sem er þykkur grautur úr dúrru eða hirsi. Eitt einkenni suður-súdanskrar matargerðar er að sósur eru oft þykktar með hnetusmjöri. Matargerðin er almennt tímafrek og flókin en konurnar eru oft allan að elda rétt dagsins. Fyrri rétturinn sem ég valdi, shaiyah, er hátíðarmatur í Suður-Súdan en eggaldinrétturinn er einn vinsælasti réttur landsins og er oft borðaður einn og sér með brauði.   


Shaiyah

600 g lambagúllas
1/2 rauðlaukur, í sneiðum
2 sellerístilkar, í bitum
4 hvítlauksrif, í þunnum sneiðum
1 jalapeno eða chili
2-3 lárviðarlauf
1 tsk svartur pipar
2 tsk cumin
2 tsk kóríanderduft
Smjör eða olía
safi úr 1/4 af lime eða sítrónu

1. Byrjið á að skera niður grænmetið, chilið og hvítlaukinn. 
2. Setjið allt nema limesafann í pott ásamt 3 dl af vatni. 
3. Sjóðið kjötið á háum hita í um 30 mínútur. 
4. Hitið smjör á pönnu og steikið kjötið á háum hita í um 15-20 mínútur. Passið að hræra oft í kjötinu svo það brenni ekki.
5. Kreistið limesafann út á og berið fram með hráum rauðlaukssneiðum, limesneiðum og pipar. 

Eggaldinsalat með hnetusmjöri
1 eggaldin, í sneiðum
Smjör eða olía
1/2 laukur, saxaður
2 hvítlauksrif, söxuð
2 1/2 dl vatn
1 msk tómatmauk
2 msk hnetusmjör
1/2 tsk cumin
1/2 tsk svartur pipar
Limesafi
Salt

1. Byrjið á að undirbúa grænmetið. 
2. Hitið smjör eða olíu á pönnu og steikið eggaldinsneiðarnar þar til þær eru gullinbrúnar. 
3. Takið eggaldinið af pönnunni og bætið við smjöri áður en þið steikið laukinn. 
4. Bætið við hvítlauknum og tómatmaukinu við.
5. Setjið eggaldinið aftur á pönnuna ásamt vatni. Setjið lokið á pönnuna og eldið í um 15 mínútur. 
6. Maukið eggaldinið niður með áhaldi. 
7. Bætið hnetusmjöri, cumin, svörtum pipar og salti út á ásamt meira vatni og sjóðið í aðrar 15 mínútur. 

8. Kreistið smá limesafa út á og berið fram sem meðlæti eða sem aðalrétt (en þá þarf að tvöfalda uppskriftina).

Þessi réttur/réttir voru afskaplega góðir. Ég bjóst alls ekki við að finna svona góðan mat fyrir Suður-Súdan. Ég gef þessum rétti hiklaust ☆☆☆☆☆! 

Nú eru 9 af 198 löndum búin! Næsta stopp er á mun kunnuglegri slóðum...

Afríka: 1 af 54
Asía: 3 af 49
Evrópa: 1 af 46
Eyjaálfa: 0 af 14
Norður Ameríka: 3 af 23
Suður Ameríka: 1 af 12


Samtals: 9 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur