Alsír - Tajine jelbana
Alsír (الجزائر) er land í Norður-Afríku og er jafnframt stærsta ríkið í þeirri heimsálfu. Höfuðborgin heitir Algeirsborg. Landið á landamæri að Túnis, Líbíu, Níger, Malí, Máritaníu, Marokkó og Vestur-Sahara. Íbúar landsins eru um 40 milljónir og búa á svæði sem er 23x sinnum stærra en Ísland. Alsír varð ekki að sjálfstæðu ríki fyrr en árið 1962 og fékk þá sjálfstæði frá Frökkum. Franska er því víða töluð í landinu en opinberu tungumálin tvö eru þó arabíska og ýmis berbísk tungumál. Flestir Alsírbúar flokka sig sem Araba eða Berbera eða blöndu af þessu tvennu. Berberar eru þó ekki einsleitur hópur heldur margir minni þjóðflokkar sem eru “upprunalegri” íbúar landsins. Langflestir Alsírbúar eru múslimar. Þar sem Alsír er gríðarlega stórt land er matarmenning landsins mjög fjölbreytt og mismunandi eftir svæðum og þjóðflokkum. Lamba- og kindakjöt er mikið borðað í Alsír og sömuleiðis fiskur í strandhéruðum landsins. Þar á eftir koma kjúklingur og nautakjöt en svínakjöt er ekki borðað. Helsta grænmetið eru kartöflur, gulrætur, laukur, tómatar, kúrbítur, kál, eggaldin og ólífur. Mikið er um alls kyns kássur og súpur. Alsírbúar neyta einnig mikils af kornmeti og brauði. Helstu kryddin sem notuð eru í alsírska rétti eru chili, kúmen, svartur pipar, cumin og ras el hanout-kryddblandan.
Skemmtileg staðreynd: Alsírbúar neyta næstmest af hunangi í öllum
heiminum.
Rétturinn sem ég valdi frá Alsír er virkilega alsírskur. Rétturinn er kássa (tajine) með kindakjöti, (kartöflum), gulrótum, lauk, tómatmauk og öllum þeim kryddum sem upp eru talin hér að ofan!
500 g kindagúllas
ólífuolía
1 laukur, í sneiðum
3 hvítlauksrif, smátt söxuð
salt og pipar
2 gulrætur, í bitum
200 g grænar baunir
1 msk tómatmauk
1/2 tsk ras-el-hanout (kryddblanda)
1/3 tsk túrmerik
1/2 tsk engiferduft
1/2 tsk cumin
2 kartöflur (ég notaði grasker)
4 ætiþistlar
2 lárviðarlauf
2 msk saxaður ferskur kóríander
2 msk söxuð ferskt steinselja
1. Byrjið á að brúna gúllasið í ólífuolíu í tajinepotti eða venjulegum potti eða djúpri pönnu.
2. Bætið lauk, hvítlauk, salti og pipar út á og steikið í 5 mínútur.
3. Setjið gulræturnar, grænubaunirnar, kryddin og tómatmaukið út á. Lækkið hitann og eldið í 10 mínútur og hrærið reglulega á meðan.
4. Hyljið kjötið með vatni og sjóðið í 15 mínútur til viðbótar.
5. Setjið kartöflurnar, ætiþistlana, lárviðarlaufin og kryddjurtirnar út á og eldið réttinn í að minnsta kosti 30 mínútur í viðbót eða þar til kjötið er orðið meyrt og gott.
Þessi réttur var virkilega góður. Mjög gott að fá þennan bragðmikla rétt eftir bragðdaufa réttinn frá Líberíu í gær.
Nú eru 29 af 198 löndum búin og loksins litast kortið almennilega! Næsta stopp er nágrannaland Alsírs... Líbýa!
Afríka: 6 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 6 af 46
Eyjaálfa: 5 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12
Samtals: 29 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli