Gvatemala - Salpicón


Gvatemala er land í Mið-Ameríku sem á landamæri að Mexíkó, Belís, Hondúras og El Salvador. Höfuðborg landsins heitir Gvatemalaborg. Í landinu búa rúmlega 16 milljónir manna á svæði sem er aðeins stærra en Ísland. Flestir íbúar landsins eru annað hvort frumbyggjar eða mestizo (blanda af Evrópubúm og frumbyggjum). Opinbert tungumál landsins er spænska þótt 23 tungumál frumbyggja séu líka töluð í landinu. Flestir landsmanna eru kristnir. Áður en Spánverjar lögðu landið undir sig á fyrri hluta 16. aldar bjuggu ýmsir þjóðflokkar skyldir Majum á svæðinu. Gvatemala fékk sjálfstæði árið 1821 og var stjórnað af einræðisherrum, studdum af bandaríska fyrirtækinu United Fruit Company, allt til 1944. Árið 1954 stóð bandaríska leyniþjónustan fyrir valdaráni í landinu til að vernda hagsmuni United Fruit Company en forseti landsins vildi umbætur í landbúnaði. Þetta varð til þess að borgarastyrjöld hófst í landinu sem stóð allt til 1996. Þúsundir óbreyttra borgara lágu þá í valnum og tugþúsundir höfðu flúið yfir til Mexíkó. Landið er í dag eitt það fátækasta í rómönsku Ameríku og ólæsi það mesta sem gerist Mið-Ameríku. Misskipting auðs í landinu er gríðarleg og um helmingur landsmanna býr undir fátæktarmörkum. Gvatemala flytur út mikið af kaffi, banönum og sykri. Peningasendingar brottfluttra íbúa eru hins vegar stærsti stofn gjaldeyristekna í landinu.

Menning Gvatemala er blanda af menningu Maja og Spánverja. Hefðbundinn fatnaður er litríkur og fallegur og Gvatemalar eiga tvo nóbelsverðlaunahafa. Matarmenning landsins er byggð á matarmenningu Maja og seinna Spánverja. Vinsæl hráefni eru maís, baunir, bananar, kartöflur, chili, hrísgrjón og kjöt. 

Ég valdi rétt sem er mjög vinsæll í Mið-Ameríku og þar með talið í Gvatemala.

Salpicón

Soðið
700 g nautakjöt (t.d. gúllas)
vatn
3 tómatar, skornir í tvennt
1 laukur, skorinn í fernt
1 lárviðarlauf
salt og pipar
kóríander, ferskt

Fyrir kjötið
1 laukur, mjög fínt saxaður
1-2 tómatar, fínt saxaðir
6 radísur, fínt saxaðar
2 dl kóríander, saxað
6 myntulauf, söxuð
salt og pipar

Meðlæti
Avókadó
Lime
Hrísgrjón (ég sleppti þeim)
Tortillur (þessum líka)

1. Byrjið á að setja allt fyrir soðið í pott nema salt, pipar og kóríander. 
2. Sjóðið kjötið í um 2 tíma eða þar til það er orðið mjög meyrt. 
3. Á meðan kjötið sýður skaltu skera niður laukinn, tómatana og radísurnar og saxa kryddjurtirnar. 
4. Þegar kjötið er tilbúið er það sett í blandara og rifið niður í honum. 
5. Setjið rifna kjötið svo í skál ásamt niðursöxuðu kryddjurtunum, lauknum, tómatnum og radísunum. Saltið og piprið eftir smekk. 
6. Saltið og piprið soðið eftir smekk og bætið kóríander út í. 
7. Rétturinn er borinn þannig fram að fyrst er kjötblandan sett í skál, svo avókadósneiðar ofan á áður en soðinu er helt út á. Gott er að kreista smá lime-safa yfir. Stundum er kjötblandan sett í tortillur. 

Þessi réttur var góður en öðruvísi en ég bjóst við. Ég hefði alveg viljað hafa smá hita í þessu og bæta við chili. Ég geri það næst því þetta er uppskrift sem ég myndi vilja þróa. 

¡Buen apetito!

Nú eru 23 af 198 löndum búin. Næsta stopp er (loksins í Afríku) Síerra Leone!!


Afríka: 3 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 4 af 46
Eyjaálfa: 4 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12

Samtals: 23 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur