Líbería - Palava

Miðborg Monroviu

Líbería er alveg stórmerkilegt land. Landið er staðsett á vesturströnd Afríku og á landamæri að Síerra Leone, Gíneu og Fílabeinsströndinni. Um 4,5 milljónir búa í landinu á svæði sem er aðeins stærra en Ísland að flatarmáli. Þar sem í dag er Líbería lifðu áður fyrr ýmsir ættbálkar. Evrópubúar komu fyrst til svæðisins árið 1461 og hófu viðskipti við innfædda. Árið 1822 hófu Bandaríkjamenn að senda frelsaða þræla til Líberíu til að vernda þá frá mismunun. Frelsuðu þrælarnir vildu þetta þó ekki endilega, margir vildu frekar vinna gegn fordómum í heimalandi sínu. Eins voru ýmsir ættbálkar fyrir á svæðinu sem ekki vildu að aðkomufólk tækju af þeim landið. Að minnsta kosti 13.000 manns höfðu verið flutt á þennan hátt til Líberíu fyrir árið 1867. Líbería fékk sjálfstæði árið 1847 og allt frá þeim tíma og til ársins 1980 stjórnaði hinn mikli minnihluti Líberíubúa af amerískum uppruna landinu. Amerísku-Líberíubúarnir sáu fyrir sér vestrænt samfélag sem frumbyggjarnir áttu einfaldlega að aðlagast. Stofnaðir voru skólar og trúboð fór í gang. Höfuðborg landsins fékk nafnið Monróvía eftir bandaríska forsetanum James Monroe. Borgin er talin sú fátækasta í heiminum. Þar sem að minnsta kosti 30 ættbálkar innfæddra eru í landinu og eru yfirgnæfandi meirihluti landsmanna voru þeir ekki sáttir við það að aðkomufólk stjórnaði landinu sínu. Árið 1980 framdi her landsins valdarán og flokksræði komst á í landinu. Upp úr þessu hófst borgarastyrjöld nokkrum árum síðar, ein allra blóðugasta í Afríku. Sú styrjöld stóð frá 1989-1996. Aftur braust út borgarastyrjöld árið 1999 og sú stóð í fjögur ár. Það er því kannski ekki skrítið að Líbería standi illa á mörgum sviðum í dag. Spilling er virkilega mikið vandamál í landinu, fjarskiptabúnaður landsins skemmdist mikið í borgarastyrjöldunum tveimur, rafmagn er nánast einungis að finna í höfuðborginni, tiltölulega fáir fullorðnir eru læsir og fátækt er gríðarleg. 
Menning Líberíu er fjölbreytt þar sem yfir 30 þjóðfélagshópar búa í landinu. Nokkrir hópar stunda fjölkvæni, menn mega þá eiga allt að fjórar eiginkonur. Líberískur vefnaður þykir fagur. Fótbolti er gríðarlega vinsæl íþrótt og karlalandslið Líberíu í fótbolta hefur tvisvar orðið Afríkumeistari, 1996 og 2002. Matarmenningin er sömuleiðis mismunandi eftir hópum. Líberíubúar af amerískum uppruna borða mat sem er líkur því sem gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna en með vestur-afrískum áhrifum. Hrísgrjón eru mikið borðuð og sérstaklega með ýmsum kássum. Kassavarótin og taro eru mikið notaðar til matargerðar. Fiskur, bananar, sítrusávextir, kókoshnetur, okra, sætar kartöflur, chili og villibráð eru sömuleiðis vænsæl til matargerðar. 
Rétturinn sem ég valdi fyrir Líberíu heitir Palava. Palava er kássa frá Maryland og Grand Kru héraði og er venjulega borðuð með hrísgrjónum. 

Palava
700 g gúllas
1 laukur, í sneiðum
2 tómatar, afhýddir og í sneiðum
engifer
chili
olía
500 g frosið spínat

1. Byrjið á að sjóða kjötið í smá vatni í um 45-60 mínútur. 
2. Steikið laukinn, tómatana og kryddin í olíu.

3. Bætið spínatinu og kjötinu út á pönnuna og látið malla í 10-15 mínútur. 

Í uppskriftinni er ekkert magn gefið upp fyrir engifer og chili. Ég þurfti því eiginlega bara að giska á hversu mikið væri gott að hafa. Ég myndi segja eftir á að um 1 sm af ferskri engiferrót eða 1/2 tsk af möluðum engifer væri hæfilegt og 1-2 chili (helst scotch bonnet). 
Þetta er annars mjög einföld uppskrift og mjög einfalt bragð af réttnum sömuleiðis. Mér fannst pínu vanta eitthvað. Veit samt ekki alveg hvað það ætti að vera. 

Nú eru 28 af 198 löndum búin! Næsta stopp er Alsír!
Afríka: 5 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 6 af 46
Eyjaálfa: 5 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12


Samtals: 28 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur