Líbía - Hraimeh


Líbía er land í Norður-Afríku sem á landamæri að Egyptalandi, Alsír, Túnis, Súdan, Tjad og Níger. Í landinu búa rúmlega 6 milljónir manna á svæði sem er um 17 sinnum stærra en Ísland. Höfuðborgin heitir Trípólí. Arabíska er opinbert tungumál landsins og flestir íbúanna eru íslamstrúar. Líbía fékk sjálfstæði frá Ítalíu árið 1947. Ekki er langt síðan Líbía var mikið í fréttum, þá í tengslum við arabíska vorið. Þá var einræðisherranum Gaddafi steypt af stóli eftir 42 ára valdatíð hans. Í kjölfar arabíska vorsins hefur verið borgarastríð í landinu og er enn í dag. Menningin í Líbíu er margslungin. Yfir strandhéruðum landsins hafa mörg ríki ríkt í gegnum tíðina og skilið eftir brot úr sinni menningu. Þar má nefna Grikki, Rómverja, Ottómana og Fönikumenn sem dæmi. Líbíumenn eru ekki einsleitur hópur því að þjóðin skiptist í að minnsta kosti fjögur þjóðarbrot, Berba, Araba, Touarega og Tebou. Matarmenning landsins er blanda af matarmenningu þessara fjögurra hópa ásamt áhrifum frá fyrrum nýlenduherrum, Ítölum. Pasta er því mikið borðað í Vestur-Líbíu en hrísgrjón í austri. Tómatar eru þá mikið notaðir ásamt lambakjöti, kjúklingi, kúskús, döðlum, ólífur og ólífuolía, möndlur, alls kyns kornmeti og mjólkurvörur. Áfengisneysla er ólögleg í landinu. 

Hraimeh
fyrir 4
3 msk ólífuolía
1 dl vatn
safi úr 1 sítrónu
5 msk tómatmauk
4 hvítlauksrif, fínt söxuð
salt
1 tsk cumin
1/2 tsk malað kúmen
1 tsk paprika
1 tsk chiliduft
560 g fiskur (túnfiskur eða hvítur fiskur)

1. Setjið ólífuolíu, vatn, sítrónusafa, tómatmauk, hvítlauk, salt, cumin, kúmen, papriku og chiliduft á stóra pönnu (með loki).
2. Hitið pönnuna og hrærið í hráefnunum þar til það er komin fallega rauð sósa. Leyfið þessu að malla í um 10 mínútur. 
3. Setjið fiskinn út á og leyfið honum að drekka í sig sósuna á hvorri hlið fyrir sig. 
4. Lokið pönnunni og leyfið fisknum að eldast á lágum hita í 15 mínútur. 
5. Gott er að setja smá steinselju eða kóríander út á áður en rétturinn er borinn fram. 


Ég hafði svo með þessu uppáhalds ofnbakaða grænmetið mitt. Það er einfaldlega klettasalat, ýmsar ferskar kryddjurtir, maríneraður hvítlaukur og radísur sem sett er í eldfast mót og bakað í ofni í um 40 mínútur við 200°C. 
Þetta var bara virkilega góður og vel bragðsterkur fiskréttur sem ég mæli með.

Þá eru 30 af 198 löndum búin! Við förum næst á virkilega kunnuglegar slóðir... nefnilega til Íslands!



Afríka: 7 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 6 af 46
Eyjaálfa: 5 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12


Samtals: 30 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur