Moldóva - Friptura de porc
Moldóva er land í Austur-Evrópu sem á landamæri að Rúmeníu og Úkraínu. Höfuðborgin heitir Chisinau. Í landinu búa um 3 milljónir manna á svæði sem er einn þriðji af flatarmáli Íslands. Raunar fækkar fólki í Moldóvu. Frá 2004 til 2014 fækkaði íbúum Moldóvu um 11,3%. Opinber tungumál landsins eru fjögur. Þau eru rúmenska, gagauzíska, rússneska og úkraínska. Langflestir tala þó rúmensku. Svæðið þar sem nú er Moldóva tilheyrði áður ríki sem nefndist Moldavía en á 14. öld lagði Ottómanveldið það land undir sig. Árið 1812 eignaðist rússneska heimsveldið svæðið og það varð hluti af Sóvétríkjunum þegar þau voru stofnuð. Moldóva fékk sjálfstæði árið 1991 eins og önnur lönd sem tilheyrðu eitt sinn Sóvétríkjunum. Moldóva er eitt fátækasta land í Evrópu en langar að verða hluti af Evrópusambandinu. Mannréttindi eru ekki virt í Moldóvu, sem dæmi nýtir lögregla landsins sér pyntingar við yfirheyrslur. Glæpir eru vandamál og þá sérstaklega mansal.
Menning Moldóvu er frekar sérstök. Landið er umkringt slavneskum löndum (fyrir utan Rúmeníu) og menningin er því blanda af latneskri og slavneskri menningu. Rúmenska, tungumálið sem flestir landsmenn tala, er nefnilega skylt ítölsku, frönsku og spænsku en ekki slavneskum tungumálum þrátt fyrir staðsetningu. Tónlistarlíf Moldóvu virðist vera blómlegt. Jafnvel hér á Íslandi hefur hún verið spiluð. Hver man ekki eftir smellinum Dragostea din tei með O-zone sem var mjög vinsælt árið 2003? Eða Epic Sax Guy (sem keppti einmitt í Eurovision í annað skiptið fyrir tveimur dögum)?
Maturinn í Moldóvu er líkur þeim rúmenska. Yfirleitt er inniheldur hann nautakjöt, svínakjöt, kartöflur, kál eða eitthvert kornmeti. Bjór, vín og divin (moldóvskst brandý) eru vinsælir drykkir. Moldóva framleiðir mikið af víni.
Í réttinum sem ég valdi frá landinu koma einmitt svínakjöt og bjór fyrir. Ég fann reyndar ekki moldóvskan bjór í Ríkinu og notaði því bara tékkneskan.
Friptura de porc
1 laukur, gróft saxaður
2 hvítlaukrif
olía
1 kg svínarif
1 msk salt
1/2 tsk svartur pipar
2 lárviðarlauf
vatn
1 1/2 dl bjór
1. Byrjið á að hita olíu (eða smjör) í stórum potti og steikið laukinn og hvítlaukinn upp úr henni.
2. Setjið svínarifin út í pottinn ásamt salti, pipar og lárviðarlaufum.
3. Hellið 2-3 dl af vatni út í pottinn og setjið lokið á. Sjóðið rifin í um 40 mínútur.
4. Setjið bjórinn út í pottinn og haldið áfram að elda rifin. Kannski 20-30 mínútur.
Nú væru svínarifin tilbúin miðað við moldóvsku uppskriftina en vegna þess að mér fannst þetta mjög ógirnilegt að sjá og kannski ekki bestu svínarif sem hafði smakkað þá ákvað ég að setja þau inn í ofn í 2 tíma eða svo. Eftir það voru þau virkilega bragðgóð og ég mæli með því að gera það sama. Moldóvsk svínarif eru venjulega borin fram með sýrðum rjóma, fetaosti og polentu.
Nú eru 27 af 198 löndum búin! Næsta stopp er Líbería!
Afríka: 4 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 6 af 46
Eyjaálfa: 5 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12
Samtals: 27 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli