Níger - Caakiri


Níger er land í Vestur-Afríku sem á landamæri að Nígeríu, Malí, Alsír, Líbíu og Tsjad. Um 80% landsins er hluti af Saharaeyðimörkinni og flestir búa því í suðvesturhluta landsins en þar einmitt höfuðborgin, Níamey, staðsett. Í landinu búa 18,6 milljónir manna á svæði sem er rúmlega 12 sinnum stærra en Ísland. 
Í Níger búa fjölmargir ólíkir þjóðflokkar og opinber tungumál landsins eru ellefu talsins. Fjölmennasti þjóðflokkurinn er Hausa (53%) og þar á eftir koma Zarma-Sonrai (21,2%) og Tuareg (10,4%). Um 80% landsmanna eru múslimar en ríki og trúarbrögð voru þó aðskilin árið 2010. Frakkland lagði svæðið undir sig upp úr aldamótunum 1900 og Níger var þá hluti af Frönsku Vestur-Afríku. Landið fékk sjálfstæði árið 1960 og allt þar til 2011, þegar fyrstu frjálsu kosningarnar voru haldnar, höfðu einræðisherrar eða herforingjastjórnir stjórnað landinu. Níger er næstminnst þróaða land heimsins og efnahagur landsins byggist á sjálfsþurftarbúskap, kvikfjárrækt og úranvinnslu. Árið 2005 var talið að yfir 800 þúsund manns (8% þjóðarinnar) væru þrælar þrátt fyrir að þrælahald sé bannað í landinu. Níger á í miklum vandræðum á mörgum sviðum. Læsi er með því lægsta sem gerist í heiminum, aðeins 28,7% og ungbarnadauði er sá allra mesti heiminum, 248 af hverju 1000 börnum deyja áður en þau verða 1 árs en hins vegar eignast nígerskar konur flest börn, 7,03 börn að meðaltali. 
Erfitt er að segja nákvæmlega hvað sé nígersk menning sé því í landinu búa fjölmargar þjóðir. Hefðbundnar íþróttir eins og kappreiðar á hestum og kappreiðar á kameldýrum ásamt sorroglímu eru enn vinsælar en þær vinsældir jafnast þó ekkert á við vinsældir fótbolta. Tónlist skiptir Nígermenn miklu máli og hver þjóðflokkur á sín eigin hljóðfæri og tónilstarstefnu. 
Maturinn í Níger er líkur því sem geris tí nágrannalöndunum. Krydd, t.d. engifer, múskat, kanill, saffron og negull, eru mikið notuð ásamt kjöti, grænmeti, salati og sósum. Kássur eru vinsælt form matar í Níger og þá eru yfirleitt höfð hrísgrjón með eða jafnvel hirsi. Þá eru kassava, sorghum, maís og baunir mikilvægur hluti af mat nígermanna. 
Ég valdi að gera rétt sem nefnist Caakiri sem er eiginlega nígersk útgáfa af grjónagraut. 

Caakiri

3 dl blómkálsgrjón
1 3/4 dl rjómi
85 g hrein jógúrt
110 g 18% sýrður rjómi 
1/4 tsk kardimommuduft
2 msk sukrin melis

1. Byrjið á að útbúa blómkálsgrjónin og sjóðið þau í 2-3 mínútur í heitu vatni og sigtið svo vatnið frá. 
2. Setjið restina af hráefninu í skál og hrærið saman. 
3. Setjið blómkálsgrjónin út í og hrærið saman. Berið svo fram með kardimommudufti og meiri sukrin - kardimommusykri. 

Þetta er lágkolvetnaútgáfan af þessum nígerska rétti en í upprunalegu útgáfunni á að vera kúskús, venjulegur sykur, rúsínur og niðursoðin mjólk í stað rjómans. 
Þetta var algjör tilraun með að setja blómkál í staðinn fyrir kúskús. Rétturinn var alveg fínn og minnti mikið á grjónagraut. Sennilega hefði verið mikið betra að setja chiafræ í stað blómkálsgrjónanna því það var smá blómkálsbragð sem passaði ekki alveg við. 


Þá eru 32 af 197 löndum búin! Næsta stopp er Sómalía!
Afríka: 8 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 7 af 46
Eyjaálfa: 5 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12

Samtals: 32 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur