Salómonseyjar - Chili taiyo


Það tókst á endanum að finna rétt frá Salómonseyjum eftir mikla leit... og þá meina ég MIKLA! Salómonseyjar eru annars um 1000 eyjar í Vestur-Kyrrahafi. Þar búa rúmlega 640.000 manns, sem langflestir eru af melanesískum uppruna, á svæði sem er aðeins minna en Suðurland og Vesturland samanlagt. Næstu nágrannar Salómonseyja eru Papúa Nýja Gínea og Vanúatú. Höfuðborg landsins heitir Honiara. Talið er að fólk frá Papúa Nýju Gíneu hafi fyrst sest að á eyjunum fyrir um 30.000 eyjum. Spánverjar komu til eyjanna, fyrstir Evrópubúa, árið 1568. Íbúar eyjanna voru á þeim tíma alræmdir fyrir mannát. Kristnir trúboðar hófu ferðir til eyjanna á 19. öld. Illa gekk í fyrstu að fá íbúanna til að taka kristni en á 20. öld voru flestir orðnir kristnir. Bretar eignuðust eyjarnar á einhverjum tímapunkti en veittu eyjunum sjálfstæði árið 1978. Landinu hefur ekki gengið sem best eftir sjálfstæði. Hagvöxtur hefur verið lítill og landið er minnst þróaða land í heiminum utan Afríku. Opinbert tungumál Salómonseyja er enska, þrátt fyrir að tala aðeins 1-2% þjóðarinnar tali það tungumál. Flestir tala Salómonspijin (tungumál sem er blanda af upprunalegum tungumálum og ensku) og/eða eitt af þeim 70 tungumálum sem upprunaleg eru á eyjunum. Það er ekki skólaskylda í landinu og aðeins 60% barna eru í skóla og drengir eru líklegri til að vera í skóla en stúlkur. Eitt stórmerkilegt við íbúa Salómonseyja er að um 10% þeirra eru með gen fyrir ljósum hárlit, en flestir þeirra eru tiltölulega dökkir á hörund. Þetta er eina svæðið utan Evrópu, og landa með mikla tengingu þangað, þar sem þetta sést.
Matarmenning Salómonseyja er frekar einföld enda virðast það gilda um margar eyþjóðir, m.a. Ísland, að hráefni til matargerðar sé ekki mjög fjölbreytilegt. Fiskur, kókoshnetur, kassava, hrísgrjón, sætar kartöflur og ávextir eru mikið notaðar til matargerðar í landinu.
Það var ekki af miklu að taka þegar ég fór að leita að uppskrift frá Salómonseyjum, a.m.k. ekki uppskriftir sem gætu gengið fyrir LKL. Loks fann ég þó uppskrift að Chili taiyo en væntingar mínar voru ekki miklar. Raunar var ég með kjúkling og rótarfranskar til öryggis ef rétturinn væri óætur. Ég var sem sagt með mjög mikla fordóma!

Chili taiyo


1 hvítlauksrif, saxað
1 laukur, saxaður
olía
1 dós túnfiskur í olíu
3 msk fersk basilika, gróft söxuð
1 lime
baunaspírur (eða núðlur)

salt og pipar

1. Byrjið á að steikja lauk og hvítlauk í olíu á pönnu og eldið þar til þeir brúnast. 
2. Setjið túnfiskinn ut á pönnuna og steikið í stutta stund. 
3. Sjóðið núðlurnar, ef þær eru notaðar. (Það þarf ekki að sjóða baunaspírurnar).
4. Bætið basilikunni út á pönnuna.
5. Kreistið lime-ið út á túnfiskinn (mjög mikilvægt skref). 
6. Saltið og piprið eftir smekk. 
7. Setjið núðlurnar/baunaspírurnar út á pönnuna og blandið öllu saman áður en rétturinn er borinn fram. 


Með þessu á svo að drekka kókosvatn með lime og myntu og horfa yfir hafið og pálmatrén til að fá alvöru Salómonseyjaupplifun! 

Ég fékk mér nú reyndar ekki drykkinn með og íbúðin býður ekki upp á rétta útsýnið en rétturinn var, ótrúlegt en satt, bara frekar góður. Ég bjóst alls ekki við því! Ég veit nú ekki hvort ég myndi gera hann aftur en vel þess virði að prófa ef maður vill eitthvað alveg nýtt og þeim sem finnst túnfisksalat æði finnst þessi réttur örugglega mjög góður. Svo er hann líka rosalega ódýr.

Þá eru 25 af 198 löndum búin! Næsta stopp er... Vatíkanið!
Afríka: 4 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 4 af 46
Eyjaálfa: 5 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12

Samtals: 25 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur