Síerra Leone - Jarðhnetukássa


Síerra Leone er land í Vestur-Afríku sem á landamæria að Gíneu og Líberíu. Höfuðborgin heitir Freetown og var stofnuð af frelsuðum þrælum frá Nova Scotia árið 1792. Í landinu búa um 7 milljónir manna á svæði sem er um 70% af stærð Íslands. Opinbert tungumál landsins er enska en íbúarnir tala í raun kreólamál sem byggjast á ensku og afrískum málum sín á milli. Alls er um sextán þjóðarbrot í landinu sem hvert hefur sitt eigið tungumál og siði. Stærstu hóparnir eru temnar og mendar. Flestir íbúar landsins eru múslimar. Síerra Leone var lengi ein af miðstöðvum þrælaverslunar á Atlantshafi. Bretland átti landið þar til það fékk sjálfstæði árið 1961. Stjórnmálaástandið í landinu hefur verið vægast sagt slæmt síðan þá. Auk þess á Síerra Leone í vanda á mörgum öðrum sviðum. Ungbarnadauði og mæðradauði í landinu er með því mesta sem gerist í heiminum. Spilling er landlæg og atvinnuleysi mikið, sérstaklega á meðal ungs fólks. Aðeins um 1/3 fullorðins fólks er læst í landinu og rúmlega helmingur allra barna á skólaskyldualdri er ekki í skóla. Þá hefur gríðarlegur fjöldi fólks í landinu ekki aðgang að hreinu vatni. Í rauninni er Síerra Leone níunda minnst þróaða land í öllum heiminum. 
Menning Síerra Leone er fjölbreytt enda búa um sextán þjóðarbrot í landinu sem hvert hefur sína siði. Maturinn er dæmigerður fyrir Vestur-Afrísku. Hrísgrjón eru borðuð með nánast öllum mat. Önnur vinsæl hráefni eru kasssavarótin, sætar kartöflur, jarðhnetur, geitakjöt, kjúklingur og nautakjöt. Kássur eru vinsælasta form rétta í Síerra Leone og jarðhnetukássa er talinn vera þjóðarréttur landsins. Sá réttur inniheldur kjúkling og grænmeti sem bragðbætt hefur verið með hnetusmjöri. Það er einmitt rétturinn sem ég ákvað að elda frá landinu. 

Jarðhnetukássa

1 laukur, saxaður
olía
600 g kjúklingakjöt
1/4 tsk cayenne
1/2 tsk hvítlauksduft
1/8 tsk laukduft
1/8 tsk svartur pipar
1/8 tsk basilika
1/8 tsk steinselja
1/8 tsk marjoram
1/8 tsk timjan
1/8 tsk salvía
1/8 tsk múskat
salt
nokkrir dropar af sítrónusafa
1 chilipipar, saxaður (má sleppa)
1 paprika, í bitum
2 stórir tómatar, skornir í bita
4 msk hnetusmjör

1. Byrjið á að brúna lauk í olíu í potti. 
2. Skerið kjúklinginn í bita og bætið út í pottinn. 
3. Brúnið kjúklinginn ásamt öllum kryddunum, chili og sítrónusafa. 
4. Bætið við smá vatni og látið malla í nokkrar mínútur.
5. Bætið paprikunnni út í ásamt tómötunum. Hrærið vel. 
6. Blandið hnetusmjörinu saman við um 1 dl af vatni til að búa til þunnt mauk. 
7. Bætið maukinu út í pottinn og eldið réttinn í um 15 mínútur í viðbót.
8. Þetta væri venjulega borið fram með hrísgrjónum og rótargrænmeti. 

Í rauninni eru öll kryddin í þessari uppskrift eftirherma af Mrs. Dash-kryddblöndu sem er vinsæl í landinu og er í upprunalegu uppskriftinni. Þar sem Mrs. Dash-kryddblandan fæst ekki hér á landi fann ég einfaldlega uppskrift að henni á netinu og bætti henni hér við. 
Mér fannst þessi réttur bara virkilega bragðgóður. Það virkar einfaldlega svo ótrúlega vel að setja hnetusmjör út í mat! Þessa uppskrift eða aðra svipaða mun ég klárlega elda aftur í framtíðinni. 

Nú eru 24 af 198 löndum búin! Næsta stopp eru Solomoneyjar (ef ég finn einhvern tímann LKL-væna uppskrift þaðan)...

Afríka: 4 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 4 af 46
Eyjaálfa: 4 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12

Samtals: 24 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur