Sómalía - Suqaar kjúklingur


Maður myndi kannski ekki ætla að að Sómalía hefði einhverja frábæra matarmenningu í ljósi þess að landið er fyrst og fremst frægt fyrir sjórán og hungursneyðar á Íslandi. Raunin er hins vegar sú að Sómalía hefur verið miðstöð verslunar síðan á fornöld og á miðöldum voru nokkur öflug soldánsdæmi á svæðinu. Í kapphlaupinu um Afríku undir lok 19. aldar náðu Ítalía og Bretland undir sig svæðinu sem í dag kallast Sómalía. Árið 1960 sameinuðust hlutarnir tveir í einn, Sómalíu, og fengu sjálfstæði. Í dag búa í landinu rúmlega 12 milljónir manna á svæði sem er rúmlega sex sinnum stærra en Ísland. Höfuðborgin heitir Mogadishu og opinber tungumál landsins eru tvö, sómalska og arabíska. Flestir íbúarnir eru íslamstrúar. Landslag Sómalíu einkennist af sléttum og hásléttum þar sem mikill hiti er og úrkoma óregluleg. Landið er afskaplega fátækt og um 43% landsmanna lifa á minna en einum bandaríkjadal á dag. Sómalska þjóðin er fremur einsleit á afrískan mælikvarða, 85% landsmanna eru einfaldlega Sómalir. Í suðurhlutanum er þó eitthvað um Eþíópa, Indverja, Persa, Ítali, Breta, Bantúmenn o.fl. Sómalía er þróunarland og þar af leiðandi er fæðingartíðni mjög há, meðalaldur íbúa lágur og lífslíkur sömuleiðis. 
Menning Sómalíu er einstök. Vert er að skoða þar gamla kastala, virki, moskur og fleira því arkítektúrinn er glæsilegur. Fótbolti er vinsælasta íþróttin í Sómalíu. Tónlist er einnig mikilvæg í þjóðarsál Sómala. 
Margar þjóðir hafa haft áhrif á matarmenningu Sómala eins og oft vill verða með miðstöðvar verslunar. Vegna þess að 99,8% landsmanna eru múslimar er svínakjöt ekki borðað og alkóhól ekki drukkið. Hrísgrjón gegna mikilvægu hlutverki í réttum frá Sómalíu og helstu kryddin, sem notuð eru, eru cumin, kardimommur, negull, kanill, salvía og múskat. Te og kaffi eru vinsælir drykkir, sérstaklega á morgnana. Kvöldmatur er borðaður frekar seint í Sómalíu, t.d. kl. 23 á meðan Ramadan stendur yfir. Eftir kvöldmat er hefð að kveikja á reykelsi til að fá góða lykt í húsið. 

Suqaar kjúklingur

1 laukur, saxaður
olía
600 g úrbeinuð kjúklingalæri
salt og pipar
1 tsk chiliduft
1 tsk cumin
1 kúrbítur, í bitum
2 tsk sítrónusafi
1 tsk edik
1 tsk kóríander, ferskur og saxaður

1. Byrjið á að saxa lauk og steikja hann í potti í olíu.
2. Bætið kjúklingnum út á og brúnið áður en kryddin eru sett út á.
3. Setjið örlítið vatn í pottinn ef þarf en leyfið kjúklingnum að eldast í um 10 mínútur á þessu stigi.
4. Bætið restinni af hráefnunum út í pottinn og eldið þar til kjúklingurinn er tilbúinn. 

Þetta væri venjulega borið fram með hrísgrjónum eða brauði. Með þessum rétti gerði ég einnig mjög vinsæla sósu frá Sómalíu sem heitir Basbas cagaar og er mjög einföld.

Basbas cagaar

6 grænir chili
2 dl ferskur kóríander
3 hvítlauksrif
1/2 tsk cumin
1/2 tsk salt
2 msk olía
safi úr 1/2 sítrónu

1. Allt sett saman í blandara og blandað. Það má bæta við teskeið af sætu ef sósan er of sterk. 


Þessi réttur var bara virkilega fínn og bragðgóður. Ég hafði nú ekkert meðlæti með honum en það hefði ekki verið verra. 

Þá eru 33 af 197 löndum búin. Næsta stopp er enn ein kyrrahafseyríkið: Tonga!

Afríka: 9 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 7 af 46
Eyjaálfa: 5 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12


Samtals: 33 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur