Tonga - Ota ika
Tonga er eyríki í Kyrrahafi sem saman stendur af 169 eyjum, af þeim eru 36 byggðar. 103.000 manns búa á eyjunum sem eru samtals örlítið stærri en Sveitarfélagið Ölfus að flatarmáli. Ólíkt mörgum öðrum eyjum í Kyrrahafinu var Tonga aldrei nýlenda en var breskt verndarríki frá 1900-1970. Höfuðborg landsins heitir Nuku’alofa og flestir íbúar landsins eru frumbyggjar/tongverskir að uppruna eða tæplega 97%. Opinber tungumál landsins eru tongverska og enska. Tongverska er m.a. skyld havaísku. Á Tonga er þingbundin konungsstjórn og konungur landsins er Tupou VI. Veðrið á Tonga er ekki amalegt. Meðalhiti þar er í kringum 21-25°C allt árið um kring. Þar geta þó komið fellibyljir á ákveðnum árstímum. Túrismi er þó ekki mikill á eyjunum.
Menning á Tonga er virkilega sérstök og það var gaman að lesa um landið og hvet alla til að lesa um hana t.d. hér. Sérstaklega var gaman að fræðast um viðhorf Tongverja áður fyrr til kynlífs fyrir hjónaband, skilnaða, blæðinga og til transmanna og samkynhneigðra. Ég gapti nánast allan tímann sem ég las um þetta en þessi viðhorf breyttust reyndar þegar kristni og vestræn gildi voru kynnt til sögunnar.
Matarmenning Tongverja er lík því sem gerist annars staðar á kyrrahafseyjunum. Fiskur og annað sjávarfang er helsta uppspretta próteins fyrir íbúanna og taró, sætar kartöflur, bananar, kókosnetur og kjúklingur eru vinsæl hráefni í matargerðina. Matur var venjulega eldaður í holum í jörðinni. Hveiti og sykur komu til sögunnar á 20. öldinni og í dag er yfir 90% landsmanna of þung og þessir venjulegu lífsstílssjúkdómar hafa fylgt í kjölfarið. Það þykir reyndar ekkert slæmt að vera feitur í Suður-Kyrrahafinu enda er það merki um fegurð.
Réttur dagsins er hefðbundinn réttur frá Suður-Kyrrahafi og minnir mikið á hið perúska ceviche.
fyrir 3 (sem aðalréttur)
600 g túnfiskur
3 lime
4 sítrónur
1 vorlaukur, saxaður
1/2 rauð paprika, söxuð
2 tómatar, saxaðir
ferskur kóríander
1 dl kókosmjólk
salt og pipar
1. Skerið fiskinn í litla bita og setjið í skál ásamt lime- og sítrónusafanum.
2. Setjið plastfilmu á skálina og geymið fiskinn inni í ísskáp í a.m.k. tvær klukkustundir.
3. Takið fiskinn úr safanum og setjið laukinn, tómatana, paprikuna, kókosmjólkina, salt og pipar út á.
4. Berið fram eftir að hafa sett fiskinn aftur inn í ísskáp í a.m.k. 30 mínútur.
600 g túnfiskur
3 lime
4 sítrónur
1 vorlaukur, saxaður
1/2 rauð paprika, söxuð
2 tómatar, saxaðir
ferskur kóríander
1 dl kókosmjólk
salt og pipar
1. Skerið fiskinn í litla bita og setjið í skál ásamt lime- og sítrónusafanum.
2. Setjið plastfilmu á skálina og geymið fiskinn inni í ísskáp í a.m.k. tvær klukkustundir.
3. Takið fiskinn úr safanum og setjið laukinn, tómatana, paprikuna, kókosmjólkina, salt og pipar út á.
4. Berið fram eftir að hafa sett fiskinn aftur inn í ísskáp í a.m.k. 30 mínútur.
Lax er nú venjulega ekki notaður í þennan rétt, frekar túnfiskur eða sverðfiskur. Ég fann hins vegar ekkert svoleiðis út í búð svo lax varð fyrir valinu. Úr þessu varð dýrindis forréttur sem ég mun alveg klárlega gera aftur. Þetta minnir auðvitað mjög mikið á ceviche en mér finnst kókosmjólkin gefa alveg sérstaklega gott bragð.
Þá eru 34 af 197 löndum búin! Næsta stopp er Ekvador!
Afríka: 9 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 7 af 46
Eyjaálfa: 6 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12
Samtals: 34 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli