Túvalú - Túnfiskkarrý
Túvalú er eyríki í Kyrrahafi sem saman stendur af þremur rifjum og sex hringrifjum. Næstu lönd eru Kíríbatí, Nárú, Samóa og Fídjieyjar. Á Túvalú búa rúmlega 10.000 manns á svæði sem er örlítið stærra en Sveitarfélagið Garður (26 km² nákvæmlega). Höfuðborgin heitir Funafuti. Fyrstu íbúar eyjanna voru pólýnesar sem námu þar land fyrir um 3000 árum. Spánverjar komu fyrst til eyjanna árið 1568, fyrstir Evrópubúa. Eyjarnar komust í hendur Breta á endanum og ríkið fékk sjálfstæði frá þeim árið 1978. Túvalú er þriðja fámennasta ríki heimsins og því með eitt af minnstu hagkerfum heims. Um 65% landmanna vinna hjá hinu opinbera en einnig stunda margir fiskveiðar. Flestir íbúar landsins eru af pólýnesískum uppruna (96%) og opinber tungumál landsins eru enska og túvalúska. Enska er þó ekki notuð í daglegu tali. Flestir íbúar eyjanna eru kristnir. Eins og í flestum ríkjum á Kyrrahafinu er offita alvarlegt vandamál. Um 65% karla og 71% kvenna eru ofþung. Túvalú telst til þróunarlanda en ríkinu gengur þó mjög vel á ýmsum sviðum, sem dæmi er nánast enginn ólæs í landinu. Menning Túvalúa er dæmigerð fyrir Kyrrahafsþjóð. Dans er vinsælt listform og fjölskyldur er afskaplega mikilvægar. Matur Túvalúa byggist að miklu leyti á kókoshnetum, rótargrænmeti, banönum og sjávarfangi.
Uppskriftin sem ég valdi frá Túvalú endurspeglar þetta. Í henni er kókosmjólk og túnfiskur. Þar sem ég fann ekki ferskan túnfisk í öllum þeim matvöruverslunum sem ég leitaði í notaði ég nautakjöt í staðinn. Sennilega hefði ég þó átt að velja einhvern annan fisk. Engu að síður var þetta bragðgóður réttur. Ég set hér upprunalegu uppskriftina.
Túnfiskkarrý
500 g túnfiskur, ferskur
olía
1 laukur, saxaður
1 msk rifinn engifer
4 hvítlauksrif, smátt söxuð
2 scotch bonnet chili (eða eftir smekk/meða eða án fræja)
1 msk karrý (venjulegt gult)
1 dós kókosmjólk
4 vorlaukar, saxaðir
100 g sykurbaunir
sojasósa
kóríander, ferskt til skrauts
1. Byrjið á að hita olíu í potti á miðlungsháum hita.
2. Steikið laukinn í olíunni í nokkrar mínútur.
3. Bætið chili, engifer, karrýi og hvítlauk út í og lækkið hitann.
4. Hrærið kókosmjólkinni út í og síðar vorlauknum og baununum.
5. Setjið túnfiskinn út í og saltið með sojasósunni.
6. Eldið túnfiskinn eins og þið viljið hafa hann (persónulega finnst mér ekki gott að elda hann alveg í gegn).
7. Venjulega væri þessur réttur borinn fram með hrísgrjónum.
Ef notað er kjöt í stað túnfisks er best að steikja kjötið í olíunni eftir að kryddið hefur verið sett út í og áður en kókosmjólkin fer út í pottinn. Þá þarf einnig að elda réttinn töluvert lengur. Annars var þetta virkilega bragðgóður réttur og mér finnst ótrúlegt hvað er hægt að gera við venjulegt gult karrý. Þetta var ekki líkt gamla góða kjöti í karrý.
‘Kai mālosi!
Ummæli
Skrifa ummæli