Vatíkanið - Nautatagliata


Það má nú alveg segja það strax að Vatíkanið er ekki með sína eigin matarmenningu enda er Vatíkanið er staðsett í miðri Róm, höfuðborg Ítalíu, og er innan við hálfur ferkílómetri að stærð. Íbúar eru um þúsund talsins. Ríkið er því það allra minnsta og fámennasta í heiminum. Maturinn sem er borðaður þar er því einfaldlega ítalskur. Páfinn sjálfur er þó ekki ítalskur heldur er hann frá Argentínu og borðar mikið af argentínskum mat.
Vatíkanið er raunar mjög merkilegt fyrirbæri. Æðsti stjórnandi þess er páfinn sjálfur og opinbert tungumál landsins er hið útdauða tungumál latína. Upp úr 4. öld e.Kr. varð svæðið sem nú er Vatíkanið að aðsetri biskupana í Róm en seinna varð það að Páfagarði. Róm var oft undir stjórn páfa og þannig voru aðstæður þegar nánast öll Ítalía sameinaðist árið 1861. Róm (og raunar Vatíkanið sjálft) varð ekki hluti af Ítalíu fyrr en níu árum seinna. Eftir að hafa verið eitt stærsta pólitíska afl Evrópu um margar aldir gat Vatíkanið ekki unað ósjálfstæðinu. Árið 1929 gaf Ítalía sig og samþykkti sjálfstæði Vatíkansins. Vatíkanið fór aftur að verða pólitískt afl á 20. öldinni og í dag á ríkið áheyrnarsæti í mörgum alþjóðastofnunum. Íbúar Vatíkansins búa þar einungis vinnunnar vegna. Allir íbúar landsins eru rómverks-kaþólskir og tala latínu við störf en sín eigin móðurmál annars. Flestir eru af ítölsku bergi brotnir. Svissneskur verðirnir, her Vatíkansins, tala þýsku sín á milli enda eru þeir allir svisslenskir.
Ég bjóst nú ekki við því að það yrði mjög auðvelt að finna uppskrift frá Vatíkaninu. Ég rakst þó á matreiðslubók sem nefnist The Vatican Cookbook. Þar er ýmsa rétti að finna sem hæfa páfanum. Hér er ein uppskrift úr þeirri bók, með smá breytingum.  

Nautatagliata


Kjöt
2 greinar ferskt timjan
1 hvítlauksrif
2 msk ólífuolía
500 g nautalund
salt og pipar

Sveppir
1 stór tómatur
250 g kantarellur (eða aðrir sveppir)
1 shallotlaukur, saxaður
ólífuolía
1 msk fersk timjanlauf
salt og pipar

Salat og dressing
lófafylli af klettasalati á hvern disk
safi úr 1/2 lime
1 msk balsamedik
2 msk ólífuolía
rifinn parmesanostur

Hitið ofninn í 225°C.
1. Byrjið á að hita vatn í potti og skerið x í tómatinn.
2. Setjið tómatinn í pottinn og sjóðið í um 2-3 mínútur.
3. Veiðið tómatinn upp úr pottinum og snöggkælið hann í klakabaði.
4. Skerið tómatinn í tvennt og takið innan út honum áður en hann er skorinn niður í teninga.
5. Saltið og piprið nautalundina.
6. Hitið olíuna á pönnu sem má fara í ofn og setjið hvítlauksrifið og timjangreinarnar út á og steikið í um 1 mínútu.
7. Brúnið lundina á öllum hliðum og setjið svo pönnuna í ofn á 225°C í 40 mínútur eða þar til kjötið hefur náð 55°C.
8. Skolið salatið og snyrtið og skerið sveppina niður, séu þeir stórir. Saxið shallotlaukinn og takið laufin af timjangreinunum.
9. Hitið olíu á nýrri pönnu og steikið sveppina á pönnunni áður en shallotlaukurinn, timjanið og tómaturinn fer út á. Bragðbætið með salti og pipar.
10. Setjið edikið og olíu í krukku ásamt limesafanum og hristið vel.
11. Setjið klettasalat á disk og dressinguna yfir. Kjötið fer svo ofan á salatið og sveppirnir fara svo ofan á kjötið. Loks er smá parmesanostur rifinn ofan á réttinn áður en hann er borinn fram. Venjulega er kartöflugratín borið fram með réttinum.

Mér fannst þessi réttur hin fínasta sunnudagssteik en hins vegar er þetta ekkert nýtt bragð. Ég mun klárlega gera þessa uppskrift aftur eða eitthvað í anda hennar. Virkilega góður matur þrátt fyrir að ég hafi gleymt að gera kartöflugratínið.

Þá eru 26 af 198 löndum búin! Næsta stopp er Moldóva!

Afríka: 4 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 5 af 46
Eyjaálfa: 5 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 3 af 12
Samtals: 26 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur