Angóla - Cocada amarela
Angóla er land í sunnanverðri Afríku sem á landamæri að Namibíu, Sambíu og Lýðveldinu Kongó. Höfuðborg landsins heitir Lúanda og flestir íbúanna eru kristnir. Íbúar landsins eru tæplega 26 milljónir og búa á svæði sem er um tólf sinnum stærra en Ísland. Opinbert tungumál landsins er portúgalska og eins og flest ríki í afríku samanstanda íbúarnir af fjöldamörgum mismunandi þjóðum. Talið er að yfir 100 mismunandi þjóðir búi í Angóla og fæstir íbúanna hafa portúgölsku að móðurtungumáli. Portúgalar hófu verlun á svæðinu á 15. öld og eignuðust smám saman stærri og stærri hlut af landinu. Meðal annars var verslað með þræla. Árið 1975 fékk Angóla sjálfstæði frá Portúgal en í kjölfarið braust út blóðug borgarastyrjöld sem endaði ekki fyrr en árið 2002. Efnahagur landsins hefur dafnað vel eftir að borgarastyrjöldinni lauk en mikið er af náttúruauðlindum í landinu, t.d. hráolía, gull, úran og demantar. Angóla er þróunarland og því eru lífsgæðin ekki góð en þó langt í frá þau verstu í Afríku sunnan Sahara.
Portúgalar hafa haft mikil áhrif á menningu Angóla sem var að mestu leyti menning Bantú-manna fyrir komu Portúgala. Vegna þess hve margar þjóðir búa í Angóla er erfitt að segja nákvæmlega hvað angólsk sé. Það sama má segja um matarmenningu landsins. Portúgalar höfðu nokkur áhrif á matarmenninguna t.d. er habanero-chili vinsæll í kjöt- og fiskréttum og sterkir réttir eru mjög vinsælir, margir réttir eru maríneraðir, sem er frekar evrópskt og loks er ólífuolíu stundum notuð til matargerðar, sem er auðvitað nánast bara gert við Miðjarðarhafið annars.
Rétturinn sem ég vali heitir cocada amarela og er eiginlega eini “evrópski” eftirrétturinn sem er vinsæll í landinu því ávextir eru mun vinsælli.
240 ml sukrin/sykur
720 ml vatn
2 negulnaglar
480 ml kókosmjöl
6 eggjarauður
salt
1 tsk kanill
1. Setjið vatn, sukrin og negul í pott og sjóðið á meðalháuum hita í um 15-20 mínútur svo úr verði sykursíróp.
2. Takið negulnaglana úr sírópinu og hrærið kókosmjölinu saman við. Haldið áfram að hita á miðlungslágum hita í 10 mínútur.
3. Takið pottinn af hellunni á meðan þið þeytið eggjarauðurnar með örlitlu salti.
4. Setjið eggjarauðurnar út í kókosblönduna og hrærið vel.
5. Setjið pottinn aftur á helluna og hrærið stöðugt í blöndunni í um 5 mínútur. Hún má þó ekki hitna of mikið vegna eggjanna.
6. Berið fram með smá kanil út á.
Mér fannst þetta bara frekar góður eftirréttur en það var fullmikið "kalt bragð" af honum vegna erythritolsins. Það gæti verið sniðugt að setja einhverja stevíu á móti.
Þá eru 38 af 197 löndum búin! Næsta stopp er Kenía!
Afríka: 10 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 8 af 46
Eyjaálfa: 6 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12
Samtals: 38 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli