Aserbaísjan - Piti


Aserbaísjan er land á Kákasusskaga og er á mörkum Evrópu og Asíu. Landið á landamæri að Rússlandi, Georgíu, Armeníu, Íran og Tyrklandi. Höfuðborg landsins heitir Baku og flestir íbúar landsins eru Aserar eða um 92%. Fjölmargir minnihlutahópar búa í landinu t.d. Kúrdar, Armenar og Tatarar. Tæplega 10 milljónir manna búa í Aserbaísjan sem er um 84% af stærð Íslands. Flestir Aserar í heiminum búa þó ekki í heimalandinu heldur í nágrannaríkinu Íran en talið er að yfir 15 milljónir Asera búi þar, jafnvel fleiri. Opinbert tungumál Azerbaijan er aserska, sem er tungumál sem er mjög skylt tyrknesku en alls ekki arabísku. Fólk hefur búið þar sem í dag er Aserbaísjan a.m.k. frá steinöld og svæðið hefur verið hluti af gríðarlega mörgum ríkjum. Fyrir utan örfá ár á 19. og 20. öld fengu Azerar í rauninni ekki sitt eigið land fyrr en Sóvétríkin liðu undir lok árið 1991 en Azerbaijan hafði verið partur af Sóvétríkjunum frá byrjun 3. áratugarins og þar áður Rússlandneska keisaradæminu. Um 97% íbúa Aserbaísjan eru múslimar, hins vegar eru aðeins um 20% fólk trúað og landið er þar með minnst trúaða múslimaríki í heimi. 
Matargerðin í Aserbaísjan líkist mikið tyrkneskri og íranskri matargerð. Grænmeti er mikið borðað í landinu t.d. eggaldin, tómatar, paprikur, kál, laukur, radísur og gúrkur. Ferskar kryddjurtir eru vinsælar og flestir réttir innihalda lambakjöt, nautakjöt eða fuglakjöt. Hrísgrjón og brauð eru helsta uppspretta kolvetna í matnum. Vinsæl krydd, sem notuð eru til matargerðar í Aserbaísjan, eru svartur pipar, súmak og saffron. 

Rétturinn sem ég valdi frá Aserbaísjan er þjóðarréttur landins og nefnist Piti og er kjötsúpa. Piti er einnig mjög vinsæll réttur í nágrannalöndunum Íran, Tajikistan, Tyrklandi og Armeníu. Eins og með íslensku kjötsúpuna eru uppskriftir mismunandi eftir fjölskyldum og svæðum. 

Piti

600 g kindakjöt eða súpukjöt
1 laukur
2 þurrkuð lime (til í Krydd- og tehúsinu)
2,5 l vatn
100 g kjúklingabaunir úr dós
300 g rótargrænmeti að eigin vali (t.d. rófa eða steinseljurót)
fersk steinselja
1/2 tsk saffron
1 tsk cuminfræ
salt og pipar
ferskt dill
ferskur kóríander

1. Setjið kjötið pott ásamt heilum afhýddum lauk, þurrkuðum lime-um og vatninu. Sjóðið þetta í 1 klst. 
2. Bætið kjúklingabaununum, rótinni, steinseljunni (heil), saffroni og cuminfræjum út í og saltið svo og piprið. Sjóðið áfram í 1 klst eða þar til kjötið fer að detta af beinunum (eða í sundur).

3. Takið kjötið og rótina upp úr pottinum og setjið á sér fat þegar súpan er borin fram, eins og er stundum gert með íslenska kjötsúpu. Lime-in þarf líka að taka upp úr og henda. Hafið ferskt dill og kóríendar á borðinu svo fólk geti sett út á súpuna sína. 

Mér fannst þessi súpa bara mjög góð. Ég valdi rófur í súpuna í staðinn fyrir kartöflur en það gerði hana kannski aðeins of líka íslenskri kjötsúpu. Ég bakaði svo mjög góð lágkolvetnarúnstykki til að hafa með súpunni og ég ætla að setja þá uppskrift inn í næsta bloggi. 

Þá eru 36 af 197 löndum búin! Næsta stopp er Sviss!
Afríka: 9 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 7 af 46
Eyjaálfa: 6 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12

Samtals: 36 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur