Ekvador - Ninos envueltos
Ekvador er land í Suður-Ameríku sem á landamæri að Kólumbíu og Perú. Galapagoseyjar tilheyra Ekvador. Í landinu búa rúmlega 16 milljónir manna á svæði sem er næstum þrisvar sinnum stærra en Ísland. Höfuðborgin heitir Quito og opinbert tungumál landsins er spænska sem 94% landsmanna tala. Ýmis frumbyggjamál er einnig töluð í landinu t.d. quechua og shuar. Fyrir komu Spánverja á 16. öld bjuggu ýmsir hópar frumbyggja á svæðinu sem margir urðu þegnar Inkaveldis á 15. öld. Landið fékk sjálfstæði frá Spáni árið 1840 og stjórnmálin hafa verið, eins og hjá mörgum öðrum ríkjum rómönsku ameríku, stormasöm. Efnahagurlandsins stendur þokkalega vel. Landið er enn talið þróunarríki en hagvöxtur hefur verið nokkur síðustu ár. Aðal útflutningsvara Ekvador er olía. Ekvador er eitt af þeim löndum heimsins þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki er sem mestur. Í Ekvador lifa t.d. 15% allra þekktra fuglategunda í heiminum og þar er að finna yfir 16.000 tegundir planta og 6.000 tegundir fiðrilda.
Matarmenning landsins er misjöfn á milli svæða og hópa enda er landið fjölmenningarland. Á hálendinu er mikið borðað af svínakjöti, kjúklingi, nautakjöti og naggrísum ásamt kornmeti og kartöflum. Við ströndina borðar fólk að sjálfsögðu ýmis konar sjávarfang en einnig mjölbanana, jarðhnetur, hrísgrjón, ávexti og grænmeti. Á amazonsvæðinu borðar fólkið mikið af rótargrænmeti og ávöxtum.
olía
2 dl smátt saxað sellerí
2 dl smátt saxaðar gulrætur
1 laukur, saxaður
2 vorlaukar, saxaðir
1/2 dl ferskt saxað kóríander
600 g hakk
1 msk tómatmauk
salt og pipar
1 tsk cumin
3 dl blómkálsgrjón
vatn
14-16 stór kálblöð
1. Byrjið á að steikja allt grænmeti og kóríander á pönnu í smá olíu í 3-5 mínútur.
2. Bætið hakkinu út á pönnuna og blandið við grænmetið.
3. Setjið tómatmaukið út á ásamt kryddunum.
4. Steikið kjötið þar til það er tilbúið og bætið þá blómkálsgrjónunum út á og blandið vel.
5. Setjið pönnuna til hliðar og hitið vatn í potti.
6. Stillið ofninn á 175°C.
7. Setjið kálblöðin út í sjóðandi vatnið í 2 mínútur og takið þau svo strax upp úr vatninu.
8. Á soðnu kálblöðin setjið þið u.þ.b. 2 msk af hakkblöndu og lokið því svo eins og tortillu. Raðið fyllta kálinu í eldfast mót og snúið endunum niður.
9. Setjið eldfasta mótið í stærra eldfast mót og setjið vatn í stærra mótið en álpappír yfir það minna.
10. Bakið í ofni í um 20 mínútur.
11. Berið fram með chilisósu að eigin vali.
Mér fannst þetta bara mjög góður réttur. Það er samt óþarfi að gufusjóða þetta að mínu mati. Næst set ég þetta bara beint inn í ofn á álpappírs og vatns.
Nú eru 35 af 197 löndum búin! Næsta stopp er Aserbaísjan!
Afríka: 9 af 54
Asía: 4 af 49
Evrópa: 7 af 46
Eyjaálfa: 6 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12
Samtals: 35 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli