Sviss - Zwiebelewähe


Sviss er ríki í Evrópu sem á landamæri að Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Austurríki og Liechtenstein. Höfuðborg landsins heitir Bern og í landinu búa um 8,4 milljónir á svæði sem er álíka stórt og allt Norðurland og Vestfirðir samanlagt. Opinber tungumál landsins eru fjögur. Þau eru franska, ítalska, þýska og retórómanska. Sviss varð ekki til sem land einnar þjóðar heldur sem bandalag mismunandi héraða sem ákváðu að tengjast af pólitískum ástæðum. Sviss er oft þekkt sem land hlutleysis. Lífsgæðin í Sviss eru með því mesta sem gerist í heiminum.

Svissnesk matargerðarlist hefur gefið heiminum ýmislegt t.d. fondú, raclette, múslí, rösti og ýmsa osta. Svisslendingar neyta mikils magn af mjólkurvörum og matargerðin líkist mjög matargerð nágrannalandanna. Þeir hafa búið til súkkulaði frá því á 18. öld og neyta í dag meira súkkulaðis en nokkur önnur þjóð. 

Rétturinn sem ég ákvað að gera fyrir Sviss heitir zwiebelewähe og er nokkurs konar laukpæ með beikoni. Venjulega ætti að vera botn í þessari böku en ég sleppti honum einfaldlega þar sem þar eru öll kolvetnin í þessum rétti.

Zwiebelewähe

50 g smjör
600 g laukur, í sneiðum
1 msk ólífuolía
150 g beikon, skorið í litla strimla
4 egg
300 ml rjómi
100 g rifinn ostur (t.d. Gruyère)
1 tsk salt
svartur pipar

1. Hitið ofninn í 220°C. 
2. Hitið smjör á pönnu og steikið laukinn í um 10 mínútur á henni við meðalhita. Laukurinn ætti að vera orðinn mjúkur og sætur.
3. Takið laukinn af pönnunni og geymið til hliðar.
4. Setjið ólífuolíu á pönnuna og steikið beikoniið þar til það er orðið stökkt og gott. 
5. Takið beikonið af pönnunni og geymið til hliðar.
6. Smyrjið eldfast mót með smjöri. 
7. Hrærið saman eggin og rjómann í skál og bætið svo rifna ostinum út í ásamt lauknum. 
8. Saltið og piprið blönduna. 
9. Hellið blöndunni í eldfasta mótið og dreifið beikoninu yfir. 
10. Bakið bökuna neðst í ofninum í 30-40 mínútur eða þar til bakan er orðin gullin. 

Með þessu má svo bera fram gott ferskt salat eða annað meðlæti að eigin vali. Ég hafði strengjabaunafranskar. Mér fannst þetta virkilega góður matur og ég sé ekki til hvers maður ætti að vera að hafa einhvern botn í þessari böku. Þetta er réttur sem ég kem til með að gera aftur. 
Í eftirrétt hafði ég kókosbúðing frá Angóla því það er einmitt næsta land. 

Nú eru 37 af 197 löndum búin!
Afríka: 9 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 8 af 46
Eyjaálfa: 6 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12

Samtals: 37 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur