Ástralía - Pavlova

Mynd eftir Alex wong á Unsplash

Ástralía er stærsta landið í Eyjaálfu og eina landið í heiminum sem nær yfir heilt meginland. Ástralía er í Breska samveldinu og því er drottning Bretlands líka drottning Ástralíu. Höfuðborg landins heitir Canberra og í landinu búa rúmlega 24 milljónir á svæði sem er meira en 74 sinnum stærra en Ísland. Fyrsta fólkið nam land í Ástralíu fyrir a.m.k. 50.000 árum. Lítið er vitað af sögu Ástralíu fyrr en Evrópumenn komu þangað á 17. öld. Bretar voru fyrstir til að setjast að í Ástralíu en þeir stofnuðu þar fanganýlendu árið 1788. Nýlendurnar urðu svo fleiri með tímanum og efnahagurinn byggðist mest á sauðfjárrækt þar til árið 1851 þegar gull fannst í landinu. Upp frá því hófst mikill námugröftur í landinu. Náttúra Ástralíu er einstök. Landið er t.d. eini staðurinn í heiminum þar sem pokadýr lifa villt og einu spendýrin sem verpa eggjum í heiminum lifa þar. Flestir Ástralir eru komnir af föngunum sem fluttir voru þangað fyrir mörgum öldum eða afkomendur fólks sem kom til landsins vegna gullæðisins á 19. öld. 7% Ástrala eru innflytjendur frá Asíu en aðeins 2,8% íbúanna eru af ættum frumbyggja. Frumbyggjum var markvisst útrýmt til að byrja með og í dag eru enn fordómar fyrir þessu fólki í Ástralíu. Frumbyggjar eru líklegri til að enda í fangelsi en hvítir Ástralir, þeir eru verr menntaðir og lifa skemur. Þegar Evrópubúar komu fyrst til Ástralíu voru þar töluð yfir 250 tungumál, í dag eru aðeins 20 notuð í daglegu tali. Einungis 12% frumbyggja nota frumbyggjamál heima fyrir.
Þegar ég fór að leita að uppskrift fyrir Ástralíu langaði mig til að finna uppskrift frá frumbyggjunum. Ég komst hins vegar fljótt að því að það var ógerlegt að ná að elda neina af þeim uppskriftum sem ég fann því nánast ekkert af hráefninu sem til þurfti er fáanlegt hér á landi. Dýralífið og jurtirnar eru svo ótrúlega ólíkar þeim evrópsku enda er landið hinu megin á hnettinum. Ég var því að sætta mig við að elda mat frá innflytjendum Ástralíu og pavlova varð fyrir valinu. Pavlova er marengsterta sem búin var til, annað hvort í Ástralíu eða Nýja Sjálandi, til heiðurs balleríuninni Önnu Pavlovu sem kom í heimsókn árið 1926. Pavlovan mín er að sjálfsögðu sykurlaus.

Pavlova
6 eggjahvítur
270 g sukrin melis (eða minna)
1 tsk hvítvínsedik
½ tsk vanilludropar
300 ml rjómi
2 msk sukrin melis
2 lime
4 ástríðualdin
250 g jarðarber

1. Stillið ofninn á 120°C.
2. Setjið bökunarpappír á plötu og teiknið hring sem er 24 cm í þvermál á pappírinn.
3. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru orðnar mjög hvítar og loftkenndar.
4. Haldið áfram að þeyta eggjahvíturnar en setjið eina og eina matskeið af sukrin melis út í á meðan.
5. Þegar marengsinn er orðinn mjög stífur og fínn (lekur ekki þótt skálinni sé haldið á hvolfi) er vanillu og edikinu bætt út í.
6. Blandið öllu mjög varlega saman og setjið svo marengsinn á bökunarplötuna (inn í hringinn sem var teiknaður). Kakan á að vera frekar há.
7. Bakið kökuna í 1 og ½ klst og slökkvið svo á ofninum, setjið sleif fyrir svo ofninn haldist opinn og látið kökuna kólna með ofninum.

8. Þeytið rjómann á meðan kakan er að kólna með smá sætu út í og setjið hann svo á kökuna þegar hún er orðin köld og komin úr ofninum. Setjið jarðarberjabita ofan á rjómann ásamt aldinkjötinu innan úr ástríðualdinunum og berki af tveimur lime-um.

Pavlovan var æði! Limebörkurinn gerði ótrúlega mikið fyrir hana. Þessi verður gerð aftur og aftur og aftur!

Þar með er ég hálfnuð á leið minni um Eyjaálfu. 43 af 197 löndum eru búin! Næsta stopp er Súdan!
Afríka: 11 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 10 af 46
Eyjaálfa: 7 af 14
Norður Ameríka: 6 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12

Samtals: 43 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur