Bahamaseyjar - Chicken souse


Bahamaseyjar er eyríki á um 700 eyjum og sandrifjum í Atlantshafi rétt sunnan við Flórída, norðan við Kúbu og Haíti. Höfuðborg landsins heitir Nassá og í landinu búa 372 þúsund manns á svæði sem er aðeins stærra en Sveitarfélagið Hornafjörður og Skaftárhreppur samanlagt. Opinbert tungumál landsins er enska en flestir tala þó bahamíska kreólsku. Flestir íbúar landsins (90%) eru af afrískum uppruna. Áður en Evrópubúar fundu Ameríku bjuggu Lúkíar á Bahamaseyjum. Spánverjar hófu að selja Lúkía sem þræla m.a. til Hispaníólu og það endaði svo að Bahamaseyjar “tæmdust” og lítið er vitað um menningu þessa fólks. Englendingar hófu að setjast að á eyjunum upp út 1648 og eyjarnar voru fyrstu um sinn griðarstaður sjóræningja. Árið 1718 urðu eyjarnar hluti af Bretlandi. Eftir að þrælahald var bannað í Bretlandi árið 1833 flúðu margir þrælar frá Flórída til eyjanna. Bahamaseyjar fengu sjálfstæði árið 1973. Efnahagur Bahamaseyja stendur nokkuð vel og aðaltekjulindin er ferðamennska en hún sér meira en helmingi íbúanna fyrir vinnu. 
Það hefði verið gaman að fá að smakka mat frá frumbyggjum Bahamaseyja, Lúkíum, en það er því miður ekki í boði. Í stað þess fáum við að smakka mat sem er blanda af matarmenningu margra þjóða. Ég valdi að gera Chicken souse, sem er mjög vinsæl kjúklingasúpa á Bahamaseyjum. Ég komst að því eftir á að þessi uppskrift er hins vegar frekar óhefðbundin útgáfa af réttinum. Enn óhefðbundnari er hún vegna þess að ég notaði sveppi í stað karaflna. 

Chicken souse
12 kjúklingavængir
3 lime
3 vorlaukar, saxaðir
1/2 græn paprika, í bitum
4 kartöflur, í bitum (eða eitthvað annað)
2 gulrætur, í bitum
1 msk allrahanda
3 jalapeno (eða chili)
2 lárviðarlauf
2 msk olía
“Season all”-krydd
vatn

1. Byrjið á að skola kjúklingavængina og leggið þá í bleyti í edikvatni til að auðveldara sé að taka skinnið af þeim. 
2. Setjið safa úr einu lime-i í skál ásamt season all-i. Látið marínerast í hálftíma. 
3. Hitið olíu í stórum potti og steikið laukinn í henni í um 10 mínútur. 
4. Bætið paprikunni út í og eldrið áfram í 5 mínútur. 
5. Bætið “kartöflunum”, gulrótunum, lárviðarlaufunum og kjúklingavængjunum út í og eldið í 10 mínútur á lágum hita. 
6. Hellið vatni yfir þannig að ekkert standi upp úr súpunni og bætið allrahanda við ásamt safa úr tveimur lime-um og smá season-all-i. 
7. Hitið að suðu og lækkið svo hitann og látið malla í klukkutíma. 
8. Bætið jalapenounum heilum út í þegar hálftími er liðinn af suðunni. 

Mér fannst þetta bara fínasta súpa. Hún var mjög sterk en það er alltaf hægt að minnka magnið af chili. 


Þá eru 40 af 197 löndum búin! Næsta stopp er Þýskaland. 
Afríka: 11 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 8 af 46
Eyjaálfa: 6 af 14
Norður Ameríka: 6 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12


Samtals: 40 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur