Eistland - Purusteik
Eistland er land í Norður-Evrópu sem á landamæri að Rússlandi, Lettlandi og Finnlandi. Höfuðborgin heitir Tallinn og í landinu búa um 1,3 milljónir manna á svæði sem er um 44% af stærð Íslands. Opinbert tungumál landsins er eistneska, sem er finnó-úgrísktmál og er skylt finnsku og samísku. Lífsgæði í Eistlandi eru frekar góð, frelsi fjölmiðla er gott, menntun er mikil og mannréttindi eru almennt virt. Allt frá forsögulegum tíma hefur Eistland verið byggt. Danir lögðu landið undir sig árið 1227 og þýskir riddarar kristnuðu landið í kjölfarið. Eistland varð ekki aftur sjálfstætt ríki fyrr en eftir hrun Rússneska keisaradæmisins árið 1918. Sjálfstæðið entist ekki lengi, Eistland var innlimað í Sovétríkin árið 1940. Endanlega fékk Eistland svo sjálfstæði við hrun Sovétríkjanna árið 1991. Um 25% mannfjöldans í Eistlandi er rússneskur enn í dag.
Eistneskur matur var áður fyrr mjög háður árstíðunum, eins og víða annars staðar. Maturinn var einfaldur og innihélt t.d. svart brauð, svínakjöt, kartöflur og mjólkurvörur og grænmeti og ber á sumrin og haustin. Eins og sést í flestum löndum heimsins er matur frá öllum heimshornum orðinn vinsæll meðal íbúanna í Eistlandi.
Eistnesk purusteik
1 kg purusteik
2 msk salt
1 msk pipar (t.d. hvítur)
2 msk sinnep
2 msk olía
1. Skerið tígla í puruna og stillið ofninn á 160°C.
2. Blandið saman salti, pipar, sinnepi og olíu í skál.
3. Berið alla blönduna á purusteikina og setjið hana vel ofan í allar skorur.
4. Setjið purusteikina í fat með smá vatni og setjið svo inn í ofn.
5. Eldið steikina í u.þ.b. tvo tíma.
6. Berið fram með sauerkrauti.
Mér fannst þessi purusteik virkilega góð. Það var mjög góð tilbreyting að fá svona vel kryddaða purusteik. Ég á klárlega eftir að gera þessa uppskrift aftur. Það er ekki aftur snúið.
Ummæli
Skrifa ummæli