Gínea-Bissá - Bolinhos de mancarra com peixe
Gínea-Bissá er land í Vestur-Afríku sem á landamæri að Senegal og Gíneu. Landið er eitt það minnsta í álfunni, er aðeins um 35% af stærð Íslands. Þar búa þó tæplega 1,7 milljónir manna. Landið var undir yfirráðum Portúgala í mörg ár og því er portúgalska opinbert tungumál landsins, sem aðeins 14% landsmanna tala þó sem fyrsta mál. Höfuðborg landsins heitir Bissá. Bissá var bætt við Gíneu-nafnið til að koma í veg fyrir rugling á Gíneu. Gínea-Bissá fékk sjálfstæði árið 1973 og síðan þá hefur engum forseta tekist að klára heilt kjörtímabil. Borgarastyrjöld geisaði í landinu á árunum 1998 til 1999 og árið 2012 framdi herinn valdarán. Um 40% íbúa landsins eru múslimar og 31% aðhyllast hefðbudnin afrísk trúarbrögð, loks eru kristnir um 22% íbúa. Gínea-Bissá er með fátækustu löndum heims og tveir þriðju hlutar íbúanna lifa undir fátæktarmörkum. Ef læknar væru hlutfallslega jafnmargir á hvern íbúa á Íslandi eins og í Gíneu-Bissá væru aðeins 15 læknar á öllu Íslandi. Bissáar mega búast við að verða 48 ára gamlir. Með öðrum orðum eru lífsgæði slæm. Í Gíneu-Bissá býr ekki bara ein þjóð eins og hér á Íslandi. Íbúum er hægt að skipta upp í að minnsta kosti fjórar mismunandi hópa eða þjóðir, Fula, Mandinka, Balanta og Manjaco sem hver lifir á sínu svæði og hafa mörg mismunandi tungumál.
Matarmenning landsins er að sjálfsögðu mismunandi á milli hópa og svæða. Almennt borða Bissáar mikið af hrísgrjónum, fiski, skelfiski, ávöxtum, grænmeti, kornmeti, mjólkurvörum og jarðhnetum. Súpur og kássur eru algengustu réttirnir.
Ég ákvað hins vegar að gera hvorki súpu né kássu heldur fiskibollur og það gekk nú heldur brösulega. Eftir að vera búin að rífa niður lauk á rifjárni og gráta eins og smákrakki í leiðinni urðu þær eiginlega að plokkfiski frekar en bollum. En bissáskur plokkfiskur er þó allavega bragðgóður en mildur. Ég mæli alveg með því að kaupa bara tilbúin jarðhnetumjöl því ég náði ekki að búa til nógu fínt mjöl sjálf heima og það var sennilega aðalvandamálið með bollurnar mínar. Það væri líka sniðugt að hafa einhverja góða sósu til að dýfa bollunum í.
Bolinhos de mancarra com peixe
200 g jarðhnetur
450 g hvítur fiskur
safi úr 1 sítrónu
1 tsk salt
1/4 tsk pipar
6 þunnar sneiðar af lauk
1 msk olía
2 laukar, rifnir
steinselja, söxuð
60 ml kjúklingasoð
olía til steikingar
1. Ef jarðhneturnar eru hráar er best að byrja á því að rista þær í ofni í 10 mínútur við 170°C. Setja þær svo í blandara/matvinnsluvél og búa til úr þeim fínt mjöl.
2. Marínerið fiskinn í sítrónusafa, salti, pipar og lauksneiðunum í 30 mínútur.
3. Steikið fiskinn í olíu þar til hann brúnast.
4. Takið fiskinn af pönnunni og leyfið honum að kólna.
5. Rífið fiskinn niður í skál og bætið rifna lauknum, steinseljunni og jarðhnetumjölinu út í.
6. Hrærið vel saman og bætið kjúklingasoðinu út í svo allt haldist saman.
7. Búið til litlar fiskibollur úr blöndunni.
8. Steikið bollurnar í olíu á pönnu og berið fram sem t.d. forrétt eða snarl.
Þá eru 45 af 198 löndum búin! Næsta stopp er Malta!
Afríka: 13 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 10 af 46
Eyjaálfa: 7 af 14
Norður Ameríka: 6 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12
Samtals: 45 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli