Kenía - Mtuzi wa samaki
Kenía er land í Austur-Afríku með landamæri að Eþíópíu, Sómalíu, Tansaníu, Úganda og Suður Súdan. Höfuðborg landsins heitir Naíróbí og í landinu búa rúmar 46 milljónir manna á svæði sem er um 5,6 sinnum stærra en Ísland. Í landinu búa fjöldamargir mismunandi ættbálkar t.d. Kikuyu, Luhya og Maasaíar. 69 tungumál eru töluð í Kenía en þó eru aðeins enska og svahíli opinber tungumál. Í Kenía hafa menn búið líklega frá því að tegundin Homo sapiens “varð til” og fyrir þann tíma bjuggu þar enn eldri forfeður okkar. Nær okkur í tíma hafa ýmsir ættbálkar búið á svæðinu á mismunandi tímabilum og við ströndina voru komnar stórar verslunarborgir strax á 1. öld f. Kr. sem versluðu mikið við Miðausturlönd og jafnvel Indland. Svahílí, annað af opinberu tungumálunum í Kenía, varð einmitt tungumálið sem notað var í viðskiptum á svæðinu og í dag er það “lingua franca” Austur-Afríku. Seint á 19. öld eignuðust Bretar svæðið en landið fékk svo sjálfstæði árið 1964. Pólitíkin hefur langt í frá verið friðsæl í Kenía frá lýðveldisstofnun. Efnahagur landsins er góður miðað við önnur lönd í Austur-Afríku. Keníumenn flytja mest út af tei, blómum og kaffi. Þrátt fyrir þetta á landið í ýmsum vandræðum t.d. í sambandi við barnaþrælkun, kynlífsþrælkun ungra stúlkna og fátækt.
Matarmenning Kenía verður af augljósum ástæðum ekki skilgreind mjög auðveldlega. Hver og einn þjóðflokkur hefur sínar sérstökum matarvenjur. Mikilvægasti hluti fæðu Keníumanna er þó maís, hirsi og sorghum sem er þá borðað með kjöti og grænmeti. Ugali, maísmjölsstappa, eða chapati-brauð er borðað með hverri einustu máltíð og hnífapör eru ekki notuð, einungis hægri hendin. Kássur eru vinsælar og við ströndina má finna nokkuð af karríréttum enda voru viðskipti við Indland nokkur fyrr á öldum.
Rétturinn sem ég valdi frá Kenía er einmitt frekar indverskur.
Mtuzi wa samaki
fyrir tvo
olía
1 laukur, saxaður
1 paprika, græn eða rauð, skorin í bita
3 hvítlauksrif, söxuð
1 tómatur, saxaður
200 ml kókosmjólk
2 tsk garam masala eða karrýduft (eða blanda)
1 msk tamarind eða sítrónusafi
500 g fiskur
salt og pipar
1. Byrjið á að steikja lauk í olíu í potti þar til hann er farinn að mýkjast.
2. Lækkið hitann örlítið og setjið paprikuna út í ásamt hvítlauknum.
3. Steikið í 2-3 mínútur til viðbótar.
4. Setjið tómatinn, kókosmjólkina, kryddið og tamarind eða sítrónusafa út í og saltið og piprið eftir smekk.
5. Látið malla í 6-8 mínútur áður en fiskurinn er settur út í.
6. Leyfið fiskinum að eldast í um 5-8 mínútur og berið réttinn svo fram.
Rétturinn væri svo venjulega borinn fram með ugali eða chapati en ég sleppti því. Mér fannst þessi fiskréttur bara fínn en afskaplega kunnuglegur. Þetta ætti ekki að vera neitt nýtt fyrir Íslendingum.
Þá eru 39 af 197 löndum búin! Næsta stopp er Bahamas!
Afríka: 11 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 8 af 46
Eyjaálfa: 6 af 14
Norður Ameríka: 5 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12
Samtals: 39 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli