Súdan - Goraasa be dama og Mish
Súdan er land í Norður-Afríku sem á landamæri að Egyptalandi, Líbíu, Eþíópíu, Erítreu, Suður-Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu og Tjad. Höfuðborg landsins heitir Kartúm og í landinu búa um 40 milljónir manna á svæði sem er rúmlega 18 sinnum stærra en Ísland. Opinber tungumál landsins eru enska og arabíska og flestir íbúanna eru múslimar. Áin Níl rennur í gegnum mitt landið og skiptir því í tvennt. Landið er að mestu eyðimörk nema syðst og sandstormar eru algengir í landinu. Hungursneyð kemur nokkuð oft upp í landinu og þar er mikil spilling og þar af leiðandi eru lífsgæðin í landinu ekki mjög góð. Eins og í flestum öðrum Afríkuríkjum býr ekki aðeins ein þjóð í Súdan. Í Súdan búa nefnilega 597 mismunandi hópar sem tala yfir 400 mismunandi tungumál.
Matarmenning Súdan er mismunandi eftir svæðum og hópum. Súpur og kássur eru mjög vinsælar. Vinsælt hréfni í súdanska rétti eru t.d. laukur, jarðhnetur, okra, kindakjöt, ostur, dúrra (sorghum), döðlur og ýmis krydd. Arabar hafa lengi haft áhrif á svæðið og því er maturinn ekki svo ólíkur því sem gerist í Miðausturlöndum. Áfengi er opinberlega bannað í landinu og brjóti maður bannið varðar það 40 svipuhöggum. Hins vegar eiga Súdanar áfengan drykk sem nefnist Araqi og er búinn til úr döðlum. Drykkurinn er framleiddur þrátt fyrir hin ströngu áfengislög.
Ég gerði eiginlega tvær uppskriftir frá Súdan. Kjötkássu og ostasósu.
Goraasa be dama
2 laukar, saxaðir
3 hvítlauksrif
olía
3 tómatar, í bitum
400 g nautagúllas
1/2 græn paprika
salt
1 tsk kardimommur
1 tsk kanill
4 msk tómatmauk
1. Byrjið á að steikja laukinn og hvítlaukinn í olíu í potti í nokkrar mínútur.
2. Bætið vatni út á laukinn og eldið áfram í 5-10 mínútur eða þar til vatnið er nánast gufað upp.
3. Bætið tómötunum út í ásamt gúllasinu og kryddunum.
4. Leyfið kássunni að eldast í um 3 mínútur til viðbótar.
5. Hrærið tómatmaukinu út í og bætið við vatni svo kássan verði aðeins þynnri.
6. Leyfið kássunni að eldast þar til kjötið er orðið meyrt og gott.
Mish
250 g hrein jógúrt (grísk jógúrt er aðeins of þykk, en í lagi)
125 g fetaostur (án olíu)
1 msk nigellufræ (fást a.m.k. í Mai thai við Hlemm)
1-2 hvítlauksrif, marin en þó heil
1 grænn chili, fínt saxaður
1. Blandið öllu saman í skál fyrir utan feta ostinn.
2. Blandið fetaostinum varlega saman við jógúrtina.
3. Geymið við stofuhita í 2-3 tíma áður en sósan er borin fram.
Mér fannst þetta afskaplega góður réttur. Hann er alveg greinilega undir smá arabískum áhrif (kanillinn og kardimommurnar). Fetaostjógúrtsósan fannst mér æði og ég á alveg örugglega eftir að nota hana með öðrum réttum í framtíðinni. Nigellufræ eru líka svo ótrúlega bragðgóð (og eru ekki það sama og svört sesamfræ).
Þá eru 44 af 198 löndum búin! Næsta stopp er Gínea-Bissá... og aldrei kemur neitt land í Asíu.
Afríka: 12 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 10 af 46
Eyjaálfa: 7 af 14
Norður Ameríka: 6 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12
Samtals: 44 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli