Andorra - Bacalao Escaixada
Mynd eftir Beatriz Álvarez hjá Unsplash |
Andorra er furstadæmi í austurhluta Pýreneafjalla milli Spánar og Frakklands. Höfuðborg landsins heitir Andorra la Vella og er hæst staðsetta höfuðborg Evrópu í 1.023 m hæð. Í landinu búa rúmlega 85.000 manns á svæði sem er örlítið minna en Hvalfjarðarsveit. Opinbert tungumál landsins er katalónska og meira en helmingur íbúanna eru ekki andorrskir. Tæplega 25% íbúanna eru spænskir og rúm 14% eru portúgalskir. Andorra er vinsæll ferðamannastaður en yfir 10 milljónir heimsækja landið árlega. Hvað erum við að kvarta hér á Íslandi? Landið er einnig skattaskjól. Lífsgæði eru með því besta sem gerist í heiminum. Landið er mjög fjalllent og meðalhæð yfir sjávarmáli er 1.996 metrar. Andorra var stofnað sem furstadæmi árið 1278. Furstadæmið var sjálfstætt þar til Napóleon hertók landið árið 1809. Furstadæmið fékk aftur sjálfstæði árið 1814.
Loksins er hér komið land þar sem hægt er að segja að
matarmenningin sé nokkurn veginn sú sama fyrir allt landið. Maturinn í Andorra
er mjög líkur því sem gerist í Katalóníu og Spáni. Afskaplega lítið hefur verið
skrifað um matargerðina þar en ég fann þó nokkrar uppskriftir og valdi eina sem
leit vel út. Ég gerði mér ekki fyrst grein fyrir því að rétturinn værir hrár og mér brá svolítið við að fatta það. Var næstum ekki til í að smakka réttinn en hann kom virkilega mikið á óvart!
Bacalao Escaixada
170 g saltfiskur
1 tómatur, saxaður
1 chili (helst piri-piri)
2 vorlaukar, smátt saxaðir
3 hvítlauksrif, mjög smátt söxuð
1 msk fersk steinselja, söxuð
1 dl ólífuolía
2 msk sherríedik
salt og hvítur pipar
1. Byrjið á útvatna saltfiskinn í sólarhring.
2. Þerrið fiskinn, roðflettið og skerið í litla bita. Setjið fiskinn í skál.
3. Ofan í skálina fer svo líka restin af hráefnunum.
4. Blandið hráefnunum vel saman og leyfið blöndunni að marínerast í að minnsta kosti hálftíma, helst lengur.
5. Saltið og piprið eftir smekk.
6. Rétturinn er borinn fram kaldur.
Þetta er snilldar forréttur og er mjög skemmtileg útgáfa af "ceviche". Þetta er alveg eitthvað sem ég gæti hugsað mér að nota í matarboði. Ég mæli hiklaust með þessum rétti.
Ummæli
Skrifa ummæli