Austur-Kongó - Muambakjúklingur
Austur-Kongó er land í Mið-Afríkur sem á landamæri að Vestur-kongó, Mið-Afríkulýðveldinu, Suður-Súdan, Úganda, Rúanda, Búrúndi, Tansaníu, Sambíu og Angóla. Höfuðborg landsins heitir Kinsasa og í landinu búa rúmlega 82 milljónir manna. Íbúar landsins eru flestir kristnir og opinbert tungumál landsins er franska. Mikið fleiri tungumál eru þó töluð þar því meira en 200 þjóðflokkar búa í landinu. Austur-Kongó heitir eftir Kongó-fljóti sem rennur í gegnum landið og er dýpsta fljót í heimi. Menn hafa búið í Kongó í að minnsta kosti 90.000 ár. Þar sem Austur-Kongó er að mestu leyti hulið frumskógi sem er erfiður yfirferðar hófst evrópsk landkönnun á svæðinu ekki fyrr seint á 19. öld. Það voru Belgar og því varð Austur-Kongó að persónulegri eign Leopolds II, konungs Belgíu. Allt að helmingur fólks í Austur-Kongó dó úr svefnsýki eða bólusótt á fyrstu áratugunum eftir að Belgía eignaðist svæðið. Austur-Kongó fékk sjálfstæði árið 1960. Pólitísk átök hafa verið tíð í landinu frá sjálfstæði og borgarastyrjöld hefur verið í landinu frá 1996 (og er enn í gangi). Lífsgæðin í Austur-Kongó eru vægast sagt slæm. Börn hafa verið notuð sem hermenn í stórum stíl í borgarastyrjöldinni og ofbeldi gegn konum þykir eðlilegt. Austur-Kongó á ríkulegar byrgðir af ýmsum auðlindum en hagnaðurinn skilar sér illa til fólks í landinu. Vannæring hrjáir um 2/3 landsmanna.
Þar sem yfir 200 þjóðflokkar búa í landinu er erfitt að
segja hvað nákvæmlega sé austur-kóngóskur matur. Minna en 2% landsins er ræktað
en það sem er ræktað er m.a. maís, hrísgrjón, kassavarót, sætar kartöflur, tómatar,
grasker, baunir og hnetur. Þetta er borðað alls staðar í landinu auk ávaxta,
sveppa, hunangs, fisks, skordýra, geitakjöts og villibráðar. Krydd eru meira
notuð í norðurhlutanum.
Muambakjúklingur
8 kjúklingabitar
1 lárviðarlauf
1 tsk timjan
2 msk pálmaolía (eða önnur olía)
1 hvítlaukrif, marið
1 laukur, saxaður
1 chili, saxaður (fræhreinsaður fyrir mildari rétt)
1 tómatur, saxaður
70 g tómatmauk
1 dl hnetusmjör
1 tsk salt
1 tsk svartur pipar
1. Byrjið á að sjóða kjúklinginn ásamt timjani og lárviðarlaufi við lágan hita í u.þ.b. 45-60 mínútur.
2. Þegar um hálftími er liðinn af suðunni er hægt að byrja á sósunni.
3. Steikið lauk, chili og hvítlauk í olíu.
4. Bætið tómatnum út í og eldið áfram í 2-3 mínútur áður en tómatmaukið fer út í og um 1 dl af soðinu af kjúklingnum.
5. Hrærið saman og setjið svo hnetusmjörið út á. Bætið við soði ef ykkur sýnist það þurfa.
6. Saltið og piprið eftir smekk.
7. Nú ætti kjúklingurinn að vera tilbúinn og annað hvort má taka kjötið af beinunum og setja út í sósuna eða (ef maður er latari) setja kjúklingabitana heila í sósuna.
8. Venjulega er rétturinn borinn fram með hrísgrjónum (en ég gerði það að sjálfsögðu ekki).
Rétturinn var mjög bragðgóður eins og flestir réttir hafa verið sem koma frá Afríku. Hnetusmjör í pottrétti klikkar bara ekki.
Þá eru 48 af 198 löndum búin! Næsta stopp er Filippseyjar! (Loksins eitthvað í Asíu!!)
Afríka: 14 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 12 af 46
Eyjaálfa: 7 af 14
Norður Ameríka: 6 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12
Samtals: 48 af 198
Ummæli
Skrifa ummæli