Filippseyjar - Adobokjúklingur
Filippseyjar er eyríki í Suðaustur-Asíu sem saman stendur af 7.107 eyjum. Höfuðborg landsins heitir Maníla og í landinu búa rúmlega 100 milljónir manna á svæði sem er tæplega þrisvar sinnum stærra en Ísland. Elstu mannvistarleifar Filippseyja eru um 67.000 ára gamlar. Ýmsir hópar fólks hafa flust til eyjanna síðan þá. Í dag búa fjölmargir mismunandi þjóðflokkar í landinu og samtals tala þeir 182 mismunandi tungumál. Opinber tungumál Filippseyja eru þó eingöngu filippseyska og enska. Fyrstu Evrópubúarnir komu til Filippseyja árið 1521 og helguðu eyjarnar Spáni. Filippseyingar urðu á endanum flestir kristnir, höfðu verið íslamstrúar áður og sumir þjóðflokkar eru það enn í dag. Árið 1896 gerðu Filippseyingar uppreisn gegn Spánverjum og endaði það þannig að Bandaríkin yfirtóku landið. Filippseyingar gerðu þá uppreisn gegn Bandaríkjunum, sem stóð yfir í tvö ár. Árið 1934 ákváðu bandarísk stjórnvöld að byrja að undirbúa Filippseyinga undir sjálfstæði. Það átti að gerast innan tíu ára. En svo skall heimstyrjöldin á og það frestaðist. Í stríðinu hertóku Japanir landið og Bandaríkin náðu landinu ekki aftur fyrr en árið 1945 til baka. Japanir gáfust ekki upp fyrr en í september 1945 en það gáfust ekki allir upp, sumir földu sig í frumskógunum. Síðasti Japaninn á Filippseyjum kom ekki fram fyrr en 1974. Filippseyjar fengu loksins sjálfstæði þann 4. júlí 1946. Lífsgæðin á Filippseyjum eru ekki frábær en þó nálægt meðaltali sé miðað við öll lönd í heiminum.
Filippseyjar eiga sér virkilega merka og sérstaka menningu,
sem er að sjálfsögðu mjög mismunandi eftir þjóðflokkum. Matarmenning
Filippseyja er blanda af spænskum, kínverskum, indverskum, japönskum og
bandarískum áhrifum á matinn sem fyrir var í landinu. Filippseyskur matur snýst
um að ná jafnvægi á milli sæts, súrs og salts bragðs. Svínakjöt, kjúklingur og
fiskur eru helstu próteinin sem notuð eru í matargerðina. Auk þess er mikið
notað af hrísgrjónum, chili, tómötum, maís, kartöflum, hvítlauk, ediki og lauk.
Ég ákvað að gera einn frægasta rétt Filippseyja og raunar
þjóðarréttinn, Adobokjúkling. Þar er kjúklingur maríneraður í ediki, hvítlauk
og sojasósu áður en hann er svo soðinn upp úr þessari sömu maríneringu.
Adobokjúklingur
8 kjúklingaleggir (með beini)
80 ml sojasósa
80 ml eplaedik
1 heill hvítlaukur
pipar
4 lárviðarlauf
1 jalapeno (má sleppa)
1. Byrjið á að marínera kjúklinginn í ediki, sojasósu, hvítlauk, jalapeno og pipar í að minnsta kosti klukkutíma (helst yfir nótt).
2. Setjið kjúklinginn, 1 dl af vatni, lárviðarlaufin og maríneringuna í pott og eldið á miðlungslágum hita með lokinu á í 45 mínútur.
3. Takið lokið af pottinum og haldið áfram að elda kjúklinginn í 15 mínútur. Þá ætti sósan að vera orðin þykkari.
4. Hendið lárviðarlaufunum og berið réttinn fram. Venjulega væri rétturinn borinn fram með hrísgrjónum. Blómkálsgrjón ættu að virka fínt.
Þetta var mjög góður réttur, eins og ég bjóst svo sem alveg við. Jalapenoinn sem ég notaði var alveg í sterkari kantinum en þetta var samt æði. Þennan rétt geri ég aftur.
Þetta var mjög góður réttur, eins og ég bjóst svo sem alveg við. Jalapenoinn sem ég notaði var alveg í sterkari kantinum en þetta var samt æði. Þennan rétt geri ég aftur.
Ummæli
Skrifa ummæli