Svartfjallaland - Cevapi
Svartfjallaland er land í Suðaustur-Evrópu sem á landamæri að Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu, Kosóvó og Albaníu. Höfuðborg landsins heitir Podgorica og í landinu búa um 680.000 manns á svæði sem er álíka stórt og Árnessýsla og Eyjafjarðarsýsla samanlagt. Opinbert tungumál landsins er svartfellska. Innan við helmingur landsmanna eru þó af svartfellskum ættum, sem dæmi eru 28% landsmanna Serbar. Á svæðinu þar sem Svartfjallaland er í dag hafa í gegnum tíðina verið mörg mismunandi konungdæmi og stundum hafa aðrar þjóðir átt svæðið. Svartfjallaland missti sjálfstæði sitt eftir fyrri heimstyrjöld þegar það varð hluti af Júgóslavíu. Þegar Júgóslavía leið undir lok á 10. áratug síðustu aldar varð landið hluti af Serbíu og Svartfjallalandi en fékk loks sjálfstæði árið 2006. Svartfjallaland er þróað ríki með markaðshagkerfi og lífsgæði eru frekar góð almennt. Svartfjallaland (og raunar stóri hluti Balkanskagans) er suðupottur ólíkra menningaheima. Hér mætast evrópsk og miðausturlensk menning og landsmenn eru einmitt ýmist kristnir eða íslamstrúar. Þetta má einnig sjá á matarmenningu landsins sem hefur orðið fyrir miklum áhrifum af miðevrópskri og tyrkneskri matarmenningu. Sjá má ýmsa rétti frá austanverðu Miðjarðarhafi eins og baklövu, pitu, kebab og annað slík en einnig kássur frá Ungverjalandi og pönnukökur, kexkökur og kleinuhringi frá Mið-Evrópu.
Rétturinn sem ég gerði frá Svartfjallalandi er af tyrkneskum uppruna. Hann heitir Cevapi og er venjulega borið fram í flatbrauði en ég sleppti því auðvitað bara.
Cevapi
800 g hakk
1 tsk paprikuduft
1 tsk svartur pipar
2 tsk salt
3 hvítlauksrif
1 tsk matarsódi
þunnt sneiddur laukur
1. Setjið öll hráefnin nema laukinn í skál og blandið mjög vel saman.
2. Mótið aflangar litlar kjötbollur og setjið á disk.
3. Hitið grillið og grillið kjötbollurnar í 8 mínútur á hvorri hlið þar til þær eru tilbúnar.
4. Sneiðið laukinn og berið hann fram með kjötbollunum.
Ég hafði svo líka smá sósu með bollunum. Ég blandaði þá mæjónesi og sýrðum rjóma saman í skál í jöfnum hlutföllum og setti smá pipar og óreganó út í. Það smakkaðist mjög vel. Fetaostur færi líka sennilega mjög vel með þessum rétti sem var mjög bragðgóður, sérstaklega því hann var grillaður.
Þá eru 52 af 198 löndum búin! Næsta stopp er Nígería!
Afríka: 14 af 54 (26%)
Asía: 6 af 49 (12%)
Evrópa: 15 af 46 (33%)
Eyjaálfa: 7 af 14 (50%)
Norður Ameríka: 6 af 23 (26%)
Suður Ameríka: 4 af 12 (33%)
Samtals: 52 af 198 (26%)
Ummæli
Skrifa ummæli