Tékkland - Karbanatky

Mynd eftir Lee Key á Unsplash

Tékkland er land í Mið-Evrópu sem á landamæri að Þýskalandi, Póllandi, Slóvakíu og Austurríki. Höfuðborg landsins heitir Prag og í landinu búa rúmlega 10 milljónir manna á svæði sem er um ¾ af stærð Íslands. Opinbert tungumál landsins er tékkneska og flestir íbúanna eru Tékkar. Eins og í mörgum öðrum löndum búa þó nokkrar aðrar þjóðir í landinu. Í tilfelli Tékklands eru það t.d. Slóvakar, Mærar og Rómafólk. Landið varð til þegar Tékkóslóvakía skiptist upp í tvo hluta, Tékkland og Slóvakíu. Það var þann 1. janúar 1993. Ekki er hægt að segja að Tékkar séu neitt sérstaklega trúaðir en 59% landsmanna eru ekki skráð í nein trúfélög. Talið er að Tékkar (þá Slavar) hafi sest að á núverandi svæði á tímum þjóðflutninganna miklu á 5. öld. Tékkar voru nokkurn veginn sjálfstæðir til ársins 1526, þegar Habsborgarar eignuðust svæðið. Við lok seinni heimstyrjaldarinnar varð svæðið hluti af Tékkóslóvakíu og landið var svo sjálfstætt árið 1993, eins og áður sagði.


Tékkneskur matur einkennist af kjötréttum. Svínakjöt er vinsælast en kjúklingur er líka mikið notaður. Lítið er af fiskmeti, utan ferskvatnsfiska, enda er landið landlukt. Tékkar framleiða mikið af bjór og drekka líka mikið af honum sjálfir, reyndar drekka þeir hlutfallslega mestan bjór á mann í heimi. Þekktustu bruggstaðirnir eru Plzen og Ceské Budejovice, sem eiga einmitt sitt hvora bjórtegundina, Pilsner og Budweis. 
Rétturinn sem ég ákvað að elda frá Tékklandi var karbanatky, kjötbollur. Í rauninni var frekar flókið að finna uppskrift frá Tékklandi sem innihélt ekki mikið af kolvetnum en loksins fann ég þó kjötbollurnar. Ég gerði mikið minni uppskrift og hún dugði vel fyrir þrjá. 


Karbanatky

650 g svínahakk
350 g nautahakk
1 laukur, smátt saxaður
4 hvítlauksrif, smátt saxaður
2 tsk salt
1 egg
1 msk marjoram

möndlumjöl eftir þörfum

1. Blandið öllu saman í skál fyrir utan möndlumjölinu. 
2. Bætið við möndlumjöli þar til blandan helst vel saman og hægt er að búa til kúlur úr deiginu..
3. Búið til meðalstórar kjötbollur og steikið í smjöri á pönnu þar til kjötbollurnar eru steiktar í gegn. 
4. Berið fram með lágkolvetnameðlæti að eigin vali og feitri sósu. 

Kjötbollurnar voru mjög góðar og ég hafði ofnbakað grænmeti og mæjónes með þeim. Þetta er auðvitað ekkert "ný" uppskrift. Bragðið var mjög kunnuglegt en fín uppskrift engu að síður.

Þá eru 47 af 198 löndum búin! Næsta stopp er Austur-Kongó!

Afríka: 13 af 54
Asía: 5 af 49
Evrópa: 12 af 46
Eyjaálfa: 7 af 14
Norður Ameríka: 6 af 23
Suður Ameríka: 4 af 12


Samtals: 47 af 198

Ummæli

Vinsælar færslur