Nígería - Kjúklingakarrý


Nígería… Það er eiginlega mjög leiðinlegt að maður hugsi fyrst til Boko Haram og Nígeríusvindla þegar maður hugsar um þetta land. Landið er staðsett í Vestur-Afríku og á landamæri að Benín, Tsjad, Kamerún og  Níger. Höfuðborg landsins heitir Abútja og í landinu búa tæplega 190 milljónir manna, sem gerir landið að því fjölmennasta í Afríku. Allt þetta fólk býr á svæði sem er tæplega níu sinnum stærra en Ísland. Yfir 500 þjóðarbrot búa í landinu, m.a. Hásar, Igbóar og Jórúbar. Enska er opinbert tungumál landsins er í því eru þó töluð 512 tungumál. Um 58% landsmanna eru kristnir og 41% íslamstrúar. Áður fyrr voru mörg konungsríki þar sem í dag er Nígería. Evrópubúar, aðallega Bretar, tóku margt fólk af ströndum Nígeríu og gerðu að þrælum sem þeir fóru svo með til Ameríku á árunum 1600-1800.  Eftir að þrælahald var bannað hófu Bretar verslun við heimamenn og árið 1914 lagði Bretland svo landið undir sig.  Landið fékk sjálfstæði árið 1960 og fljótlega hófust mikil átök á milli stærstu þjóðarbrota landsins. Árið 1967 braust út borgarastyrjöld sem stóð yfir í þrjú ár. Herforingjastjórnir ríktu þá yfir landinu til 1999. Nígería á nokkuð af olíulindum en lífsgæði í landinu eru ekki mjög góð og fátækt er mikil.

Nígerísk matarmenningu svipar mjög til þess sem almennt gerist í Vestur-Afríku. Mikið er notað af jarðhnetum og pálmaolíu, kryddum og chili. Mikið er um grillaðan mat eða pottrétti. Pottréttirnir innihalda gjarnan bæði kjöt og fisk. Auk þess er mikið borðað af hrísgrjónum og rótargrænmeti eins og sætum kartöflum, yam og kassava.  

Ég gerði kjúklingakarrý frá Nígeríu og með því hafði ég lágkolvetna fufu. Fufu er borðað mjög víða í Afríku og er yfirleitt búið til úr kassavamjöli eða jafnvel maísmjöli. Það mætti lýsa fufu sem mjög þykkum grauti. (Vestur-)Afríkubúar hafa fufu, Asíubúar hrísgrjón og Evrópubúar kartöflur. 

Kjúklingakarrý frá Nígeríu
1 gulrót
1 laukur
3 sveppir
1/2 græn paprika
1/2 rauð paprika
3-4 kjúklingalæri, úrbeinuð í bitum
2 grænmetis- eða kjúklingateningar
1 tsk timjan
2 tsk nígerískt karrýduft
xanthan gum
salt

1. Byrjið á að undirbúa grænmetið. Gulrótin er skorin í litla hálfmána. Helmingurinn af lauknum er saxaður smátt en hinn er skorinn í sneiðar. Sveppirnir eru líka skornir í sneiðar. Paprikurnar fara í mjóar lengjur. 
2. Skerið kjúklinginn í frekar stóra bita og setjið í pott.
3. Setjið teningana marða út í pottinn ásamt timjani og saxaða lauknum. 
4. Hellið vatni yfir kjúklinginn þannig að allt sé undir vatni. Stillið á háan hita. 
5. Setjið nígeríska karrýduftið út í pottinn ásamt gulrótunum og sveppunum. Hrærið og eldið áfram í smá stund.
6. Setjið paprikuna og hinn helminginn af lauknum út í og smá xanthan gum. 
7. Saltið réttinn og smakkið til þegar kjuklingurinn er tilbúinn. 

8. Berið fram með fufu-i. 

Nígerískt karrýduft
1,5 tsk engiferduft
1,5 tsk hvítlauksduft
1 msk kóríanderduft
1 msk cumin
1 msk túrmerik
1/2 tsk cayennepipar

1/2 tsk chiliduft

1. Öllu blandað saman. 

Fufu
1 dl kókoshveiti
1 dl möndlumjöl
1 tsk husk
vatn eftir þörfum

1. Setjið allt þurrefnið í pott ásamt u.þ.b. 1 dl af vatni.
2. Hitið pottinn og hrærið öllu saman. 

3. Bætið við vatni og þurrefnum eftir þörfum þar til þykkur grautur hefur myndast í pottinum. Passið að hræra stöðugt í pottinum svo fufu-ið brúnist ekki eða brenni.

Mér fannst fufu-ið koma einstaklega skemmtilega út. Ég hef aldrei prófað alvöru fufu en mér finnst lágkolvetna fufu alveg snilldar meðlæti ef maður vill eitthvað sem líkist kartöflustöppu/mús. Fufu-ið er mjög milt en einhvern veginn deyfir bragðið af matnum eins og hrísgrjón og kartöflur gera. Mér á það persónulega til að finnast lágkolvetna matur of bragðmikill því það er ekkert sem vegur upp á móti oft. Karrýið sjálft fannst mér ósköp ómerkilegt. 

Þá eru 53 af 198 löndum búin! Næsta stopp er nágrannalandið Benín!

Afríka: 15 af 54 (28%)
Asía: 6 af 49 (12%)
Evrópa: 15 af 46 (33%)
Eyjaálfa: 7 af 14 (50%)
Norður Ameríka: 6 af 23 (26%)
Suður Ameríka: 4 af 12 (33%)


Samtals: 53 af 198 (27%)

Ummæli

Vinsælar færslur