San Marínó - Maiale al latte
Titano. Byggðin er öll í hlíðum eða á toppi þess fjalls. Höfuðborg San Marínó heitir San Marínó og í landinu búa um 33.000 manns á svæði sem er örlítið minna en Sandgerðisbær (sveitarfélagið allt). Í landinu er töluð ítalska og flestir íbúanna eru kaþólskir. Ótrúlegt en satt eru níu sveitarfélög í landinu og 43 kirkjusóknir. Sandgerðisbær má fara að herða sig. San Marínó var stofnað árið 301 af heilögum Marínusi og hefur alltaf verið sjálfstætt. Landið er algjörlega háð Ítalíu hvað varðar efnahag. Helstu atvinnuvegir í landinu eru bankaþjónusta, ferðaþjónusta, rafeindatækni og keramikframleiðsla. Lífsgæði í San Marínó eru mjög góð og landið er eitt af þeim ríkustu í heimi.
Maturinn í San Marínó er ákaflega líkur því sem gerist á Ítalíu, sérstaklega Emilia-Romagnahéraði og Marchehéraði. Landið á þó nokkra rétti sem eru einungis þaðan t.d. Torta tre monti (Þriggjatindakaka) og Torta Titano (Titanokaka).
Rétturinn sem ég eldaði frá San Marínó heitir Maiale al latte, sem er svínahnakki soðinn í mjólk og víni í langan tíma.
Maiale al latte
fyrir 7-8 manns
4 msk ólífuolía
2 kg svínahnakki
2 rósmarínkvistar (helst ferskir)
2 salvíukvistar (helst ferskir)
4 lárviðarlauf
4 hvítlauksrif, með hýðinu
1,5 dl hvítvín
7 dl nýmjólk
salt og pipar
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Hitið olíuna í potti (sem má fara í ofn) og brúnið steikina í 5-8 mínútur á hverri hlið.
3. Í lokin setjið þið rósmarín- og salvíukvistina ásamt lárviðarlaufunum og hvítlauknum út í olíuna og leyfið olíunni að draga í sig bragðið.
4. Setjið svo hvítvínið og mjólkina út í pottinn og saltið og piprið vel áður en potturinn er settur inn í ofn í um þrjá klukkutíma.
5. Snúið steikinni við einu sinni á þessum þremur klst.
6. Mjólkin mun verða kekkjótt og illa útlítandi og það þarf ekki að hafa hana með ef maður vill ekki en hún er mjög bragðgóð. Saltið og piprið eftir þörfum áður en steikin er borin fram með meðlæti að eigin vali.
Þessi réttur var æðislegur! Með bestu réttunum sem ég hef gert í þessari áskorun. Þetta er fullkomin máltíð og algjör snilld að elda fyrir matarboð. Ég mæli hiklaust með þessum ótrúlega einfalda og góða rétti. Maður þarf varla að gera neitt og samt er hann einfaldlega fullkominn.
Ummæli
Skrifa ummæli