Laos - Foe


Laos er ekki land sem maður heyrir mikið um dags daglega. Laos er land í Suðaustur-Asíu sem á landamæri að Mjanmar, Kína, Víetnam, Kambódíu og Taílandi. Höfuðborg landsins heitir Vientiane og í landinu búa tæplega 7 milljónir manna á svæðis em er rúmlega tvöfalt stærra en Ísland. Í landinu búa fjölmargir þjóðflokkar. Stærsti hópurinn er Lao-fólkið (53%), sem landið heitir eftir. Flestir íbúar landsins eru búddhatrúar en þó er um 31% fólksfjöldans fylgir enn hinni gömlu andatrú landsins. Laos varð til á 14. öld og hét þá reyndar Milljónfílalandið. Frakkar eignuðust landið seint á 19. öld. Laos fékk sjálfstæði árið 1953 og síðan þá hefur verið flokksræði þar sem kommúnistaflokkurinn ræður ríkjum. Laos er mjög fjallent land og er að mestu í regnskógabeltinu. Laos glímir við fjöldamörg vandamál, s.s. ólöglegt skógarhögg og ýmis mannréttindabrot. Um 80% íbúanna vinna við landbúnað en ferðamannaiðnaðurinn hefur tekið stökk síðustu ár, frá því að fá um 80 þúsund ferðamenn árið 1990 yfir í að tæplega 2 milljónir heimsóttu landið árið 2010.
Ferðamennirnir sem koma til Laos verða sennilega ekki fyrir vonbrigðum með matargerðina. Í Laos er mikið borðað af hrísgrjónum, sérstaklega af einni gerð mjög sterkjuríkra hrísgrjóna (e. sticky rice), og núðlum. Með þeim borða Laosar mikið magn af ferskum kryddjurtum, m.a. sítrónugrasi, asískri basiliku, lime-laufum, kóríander og myntu. Meðal grænmetis og ávaxta sem einkennir laoska matargerð eru chili, bambus, bananar, gúrka, sveppir, tómatar og papaja. Sojasósa og fiskisósa eru mikið notaðar til salta og "krydda" mat. Helsta próteinuppspretta Laosa eru kjúklingur, nautkjöt, svínakjöt, andakjöt og ferskvatnsfiskar. 


Foe

súpa
2 l af nautasoði
1 stilkur sítrónugras (eða tsk af mauki)
4 cm engifer, í stórum bitum (hýðið má vera á)
4 cm galangal, í stórum bitum (þurrkað galangal fæst m.a. í Krydd- og tehúsinu)
4 kaffír lime-lauf (betra að nota frosin en þurrkuð)
fiskisósa eftir smekk

400 g nautasteik, í örþunnum sneiðum
núðlur t.d. shiratakinúðlur eða kúrbítsnúðlur (má sleppa)

áleggshugmyndir
mynta, kóríander, kál, basilika, vorlaukur, lime, tómatar, chili, chilisósa, baunaspírur, fiskisósa, sriracha

1. Byrjið á að búa til súpuna sjálfa með því að hita nautasoð, sítrónugras, engifer, galangal og limelauf í potti.
2. Bætið við fiskisósu eftir smekk og smakkið súpuna reglulega. Bætið við salti ef þarf. Súpan verður betri seinna.
3. Skerið nautasteikina í örþunnar sneiðar og setjið á fat. Það er þægilegra að skera kjötið ef það er hálffrosið.
4. Sjóðið núðlurnar, ef slíkar núðlur eru notaðar. Kúrbítsnúðlurnar þarf ekki að sjóða.
5. Skerið niður áleggið sem á að setja út á súpuna, ef það þarf.
6. Berið áleggið, kjötið og núðlurnar á borð en súpuna er gott að hafa á lágum hita á eldavélinni því það er betra að hafa hana frekar heita. Veiðið kryddin upp úr súpunni og hendið.

7. Því næst raðar hver og einn matnum í súpuskálina sína. Best er að byrja á því að setja núðlurnar í botninn á skálinni og síðan nokkrar sneiðar af hráu nautakjötssneiðunum. Því næst er hægt að setja álegg út á ef maður vill. Mér finnst persónulega mjög gott að hafa kóríander, vorlauk, chilisósu og baunaspírur. Loks er súpan sett út á og við það eldast nautakjötið.

Mér finnst þessi súpa æði! Súpan sjálf var ekkert svo góð þegar ég var að smakka hana til fyrst en um leið og allt kemur saman verður þetta ótrúlega góð súpa. Svo er líka bara svo skemmtilegt að setja hana saman. 

Þá eru 56 af 198 löndum búin. Næsta stopp er Dóminíka!



Afríka: 16 af 54 (29%)
Asía: 7 af 49 (14%)
Evrópa: 16 af 46 (34%)
Eyjaálfa: 7 af 14 (50%)
Norður Ameríka: 6 af 23 (26%)
Suður Ameríka: 4 af 12 (33%)


Samtals: 56 af 198 (28%)

Ummæli

Vinsælar færslur